Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir lögregluna auka viðbúnað sinn á Þjóðhátíð í sumar vegna aukinnar hættu á vopnaburði.
Karl Gauti nefnir að þó hann hafi ekki sérstakar áhyggjur af auknu ofbeldi á Þjóðhátíð þá sé mikilvægt að bregðast við hættunni sem hefur verið áberandi á höfuðborgarsvæðinu.
„Þetta er ástand á höfuðborgarsvæðinu. Það er aukinn vopnaburður ungmenna og við viljum bara koma í veg fyrir það að þetta berist hingað á útihátíðir í Vestmannaeyjum til dæmis,“ segir Karl Gauti í samtali við mbl.is.
Lögreglan mun auka viðbúnað með málmleitartækjum og markvissri leit á þeim sem grunaðir eru um að bera vopn.
„Við ætlum fyrst og fremst að leggja áherslu á þetta hjá lögreglunni. Það verður betra eftirlit, við verðum með málmleitartæki og við munum leita á aðilum þar sem rökstuddur grunur er um að þeir gætu hugsanlega verið með vopn eða hnífa,“ segir Karl Gauti.
Hann leggur þó áherslu á að leit á fólki verði markviss og ekki framkvæmd á öllum.
„Við gerum þetta bara af handahófi og svo náttúrulega þekkjum við okkar fólk,“ segir Karl Gauti og útskýrir að lögreglan fái einnig aðstoð frá lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu og víðar.
Að minnsta kosti 25 lögreglumenn munu vera að störfum á Þjóðhátíð, auk nokkurra sérsveitarmanna sem verður fjölgað frá síðasta ári.
Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur einnig lagt mikla áherslu á að stöðva sölu fíkniefna.
„Við skiptum okkur af og reynum að uppræta söluaðila,“ segir Karl Gauti.
Hann segir jafnframt að það öflugt eftirlit hafi fælandi áhrif.
„Ef fólk veit að það er tekið hart á þessu þá minnka líkurnar á að menn láti sjá sig sem eru á þeim buxunum,“ segir Karl Gauti.
Karl Gauti leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að samfélagið taki þátt í baráttunni gegn ofbeldi og vopnaburði.
„Það skiptir afar miklu máli að fá alla aðila til samstarfs,“ segir hann og nefnir að þetta samstarf hafi skilað góðum árangri í fyrra og í átakinu gegn fíkniefnum fyrir 20 árum.
Karl Gauti segir lögregluna gera þá kröfu á skipuleggjendur Þjóðhátíðar að útvega gæslumenn. „Þeir eru með einhverja hundrað gæslumenn sem eru á vöktum, og ef það væri ekki, ef sú gæsla myndi minnka, þá yrði að auka löggæsluna á móti,“ segir hann.
Á meðan hátíðinni stendur verða daglegir fundir milli lögreglu og gæsluaðila til að tryggja öryggi hátíðargesta.
„Við erum með daglega fundi. Við erum þegar búin að funda nokkrum sinnum núna og svo er daglega fundað á meðan á hátíðinni stendur,“ segir Karl Gauti.
Með þessum aukna viðbúnaði vonast lögreglan í Vestmannaeyjum til að tryggja að Þjóðhátíð fari fram án stórslysa eða alvarlegra brota.