„Fáheyrður atburður“

Lögreglan vildi ekkert tjá sig um málið.
Lögreglan vildi ekkert tjá sig um málið. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ef það sem kemur fram í fjölmiðlum er rétt, að konan hafi verið á berangri, er þetta fáheyrður atburður, sérstaklega á Íslandi,“ segir Guðbrandur Örn Arnarson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Viðbragðsaðilar leituðu aðfaranótt sunnudags að konu sem var talin hafa farið í sjó­inn við Örfiris­ey á Granda í Vesturbænum.

Síðar var greint frá því að aðkomu slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og Landhelgisgæslunnar að leitinni væri lokið og að konan hefði ekki fundist. Málið væri til rannsóknar hjá lögreglu. 

Ætlaði að synda úr Engey

Að sögn RÚV komst konan sjálf í land í Engey og ætlaði að synda þaðan til baka þegar henni var bjargað úr sjónum af skipverjum á smábáti um einum og hálfum sólarhring eftir að hafa farið í sjóinn. 

Nútíminn greindi fyrst frá því að konan hefði fundist „köld og hrakin við Engeyjarsund“ og að hún hefði verið flutt á Landspítalann. Ekkert hefur verið nánar greint frá líðan hennar. 

Björgunarbátur frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Björgunarbátur frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Fréttu í gegnum fjölmiðla

Guðbrandur Arnar segir að björgunarsveitir hafi ekki verið við leit þegar konan fannst en að leit átti að fara að hefjast að henni á nýjan leik. Slysavarnafélagið Landsbjörg hafi frétt af því í gegnum fjölmiðla að konan hefði fundist.

Á áttunda tug björgunarsveitarmanna höfðu áður tekið þátt í leitinni að konunni, bæði á sjó og landi, ásamt þyrlu og drónum. „Allar vísbendingar bentu til þess að konan hefði farið í sjóinn,“ segir hann.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vildi ekkert tjá sig um málið þegar eftir því var leitað í dag en samkvæmt upplýsingum mbl.is er málið viðkvæmt.

Embætti land­lækn­is bend­ir á að mik­il­vægt sé að þeir sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir segi ein­hverj­um frá líðan sinni, hvort sem er aðstand­anda eða hafi sam­band við Hjálp­arsíma Rauða krossins 1717, eða á net­spjalli 1717.is, við hjúkr­un­ar­fræðing í net­spjalli á heilsu­vera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-sam­tak­anna s. 552-2218. Píeta-sam­tök­in bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyr­ir aðstand­end­ur þeirra sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir.

Fyr­ir þau sem misst hafa ást­vin í sjálfs­vígi bend­ir land­læknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-sam­tök­un­um í síma 552-2218.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert