Fjárfestingin mun hlaupa á milljörðum króna

Stofnhús - Jónas Halldórson
Stofnhús - Jónas Halldórson mbl.is/Anton Brink

Kostnaður við uppbyggingu 150 íbúða á Ásbrú í Reykjanesbæ mun hlaupa á nokkrum milljörðum króna.

Þetta segir Jónas Halldórsson, framkvæmdastjóri Stofnhúsa, í samtali við mbl.is.

Hann segir að það sé spennandi að fá að taka þátt í uppbyggingunni á Ásbrú, en þetta verður fyrsta íbúðauppbyggingin frá því að varnarliðið fór.

„Við erum fyrstir inn en ég hef fulla trú á því að það komi miklu fleiri í kjölfarið,“ segir Jónas.

Hefja vonandi framkvæmdir á næsta ári

Jónas vonast til þess að fyrsta skóflustungan verði tekin á næsta ári en núna er þróunarvinna fram undan.

Í dag skrifuðu Kadeco, Reykjanesbær og byggingafélagið Stofnhús undir samning um þróun og uppbyggingu íbúðabyggðar á svonefndum Suðurbrautarreit á Ásbrú. Í samningnum er kveðið á um að byggðar verði að lágmarki 150 íbúðir á reitnum.

Búið er að skrifa undir samning um uppbyggingu að lágmarki …
Búið er að skrifa undir samning um uppbyggingu að lágmarki 150 íbúða. mbl.is/Anton Brink

Fullt af möguleikum á Ásbrú

„Þetta er mikið ánægjuefni. Við erum að sjá núna að við séum að fara nýta þessi tækifæri fyrir þéttingu byggðar hérna á Ásbrú. Hér er fullt af möguleikum til að skapa enn þá flottara samfélag en er hérna í dag,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, í samtali við mbl.is.

Í nýju rammaskipulagi Ásbrúar, sem nú er í auglýsingu, er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi upp í allt að 14 þúsund til ársins 2050, en í dag eru íbúarnir um fimm þúsund.

Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco.
Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco. mbl.is/Anton Brink

Mikið af innviðum til staðar

„Hér eru svo mikið af innviðum til staðar. Hérna er gatnakerfi, lagnakerfi, blágrænar ofanvatnslausnir og allt sem við þurfum til. Þannig það er bara að nýta reitina á milli hinna húsanna, á milli veganna. Við sleppum við helling af fjárfestingu í vegakerfi til dæmis,“ segir Pálmi.

Hann segir Ásbrú vera frábært samfélag og að samhliða frekari uppbyggingu sé hægt að skapa enn betri ímynd á samfélaginu.

Fyrirhuguð uppbygging á Ásbrú.
Fyrirhuguð uppbygging á Ásbrú. Tölvuteiknuð mynd/Kadeco
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka