Frjósemi Íslendinga aldrei minni

Frjósemi Íslendinga hefur aldrei verið minni en í fyrra síðan …
Frjósemi Íslendinga hefur aldrei verið minni en í fyrra síðan tekið var að halda yfir hana skrár árið 1853. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frjósemi Íslendinga hefur aldrei verið minni en árið 2023 þegar fjöldi lifandi fæddra barna á Íslandi var 4.315 sem er fækkun frá þeim 4.382 sem fæddust árið á undan. Frá þessu greinir Hagstofan á vef sínum.

Alls fæddust 2.257 drengir og 2.058 stúlkur í fyrra sem gerir hlutfallið 1.097 drengir á móti hverjum 1.000 stúlkum. Eftir því sem Hagstofan greinir frá er höfuðmælikvarðinn á frjósemi fjöldi lifandi fæddra barna á æviskeiði hverrar konu og er það haft til viðmiðunar að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn svo viðhalda megi mannfjölda til lengri tíma.

Árið 2023 var frjósemi íslenskra kvenna 1,59 og hefur ekki verið minni síðan tekið var að halda skrár á þessum vettvangi árið 1853. Var frjósemin 1,67 árið 2022 sem er sú næstminnsta sem mælst hefur á landinu. Hefur frjósemi á landinu ekki farið upp fyrir 2,0 síðan árið 2012, að sögn Hagstofu, en þá var hún 2,1.

Breytingar á aldursbundinni fæðingartíðni

Þá greinir stofan frá því að fæðingartíðni mæðra undir tvítugu hafi í fyrra verið 3,7 börn á hverjar 1.000 konur sem sé alllágt samanborið við tímabilið 1961 til 1965 þegar sú tíðni reis hve hæst en þá fæddust 84 börn á hverjar 1.000 konur undir tvítugu. Fara þurfi aftur til ársins 1870 til að finna ár þar sem fæðingartíðni kvenna undir tvítugu fór undir 4,0 börn á hverjar 1.000 konur.

Sé litið til árabilsins 1932 til 2018 var aldursbundin fæðingartíðni ávallt hæst í tveimur aldurshópum, 20 til 24 ára og 25 til 29 ára, en á þessu varð breyting árið 2019 þegar tíðnin varð hæst innan aldurshópsins 30 til 34 ára. Árið 2023 var það sama uppi á teningnum þegar 108,0 börn fæddust hverjum 1.000 konum á aldursbilinu 30 til 34 ára, en 102,1 barn konum á aldrinum 25 til 29 ára og hefur fæðingartíðni aldrei verið svo lág fyrir það aldursbil.

Þá greinir Hagstofan frá því að meðaldur mæðra hafi hækkað jafnt og þétt síðustu áratugi og eignist konur nú sitt fyrsta barn almennt síðar á ævinni en áður tíðkaðist. Var meðalaldur frumbyrja undir 22 árum frá sjöunda áratugnum öndverðum og fram yfir 1980, en eftir miðjan níunda áratug hefur hann þokast upp á við og var í fyrra 28,9 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert