Fyrsta uppbyggingin frá því að varnarliðið fór

Búið er að skrifa undir samning um uppbyggingu að lágmarki …
Búið er að skrifa undir samning um uppbyggingu að lágmarki 150 íbúða. mbl.is/Anton Brink

Búið er að semja um fyrstu húsnæðisuppbygginguna á Ásbrú í Reykjanesbæ frá því að varnarlið Bandaríkjahers fór árið 2006.

Gert er ráð fyrir lágreistri byggð fjölbýlishúsa og munu í upphafi vera byggðar að lágmarki 150 íbúðir. Lögð verður áhersla á að skapa grænt og barnvænt umhverfi.

Fyrr í dag skrifuðu Kadeco [Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar], Reykjanesbær og byggingafélagið Stofnhús undir samning um þróun og uppbyggingu íbúðabyggðar á svonefndum Suðurbrautarreit á Ásbrú.

Fyrirhuguð uppbygging á Ásbrú.
Fyrirhuguð uppbygging á Ásbrú. Tölvuteiknuð mynd/Kadeco

33 þúsund fermetra reitur

Reiturinn er miðsvæðis á Ásbrú og um 33 þúsund fermetrar að flatarmáli.

Deiliskipulag um svæðið verður gert á grunni nýs rammaskipulags fyrir Ásbrú þar sem gert er ráð fyrir byggð í anda þess byggðamynsturs sem fyrir er á svæðinu.

Áhersla er meðal annars á blágrænar ofanvatnslausnir og grænt og barnvænt umhverfi. Gert er ráð fyrir að deiliskipulag fyrir reitinn verði kynnt og auglýst næsta vetur. Þess er vænst að uppbygging geti hafist fljótlega í kjölfarið, að er kemur fram í tilkynningu frá Kadeco. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert