Á fimmtudagskvöld er stefnt á að malbika báðar akreinar á Bústaðarvegi frá Litluhlíð og að Kapellutorgi. Kaflinn er um 440 metrar á lengd og verður Bústaðavegi að hluta til lokað á meðan framkvæmdunum stendur.
Áætlað er að framkvæmdirnar standi frá klukkan 19 annað kvöld og til 6, aðfaranótt föstudags. Þetta kemur fram í tilkynningu frá malbikunarstöðinni Colas.
Þá verða viðeigandi merkingar og hjáleiðir settar upp og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát við vinnusvæðin.
„Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. Vinnusvæðin eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum,“ segir í tilkynningunni.