Íslendingur fannst látinn á hóteli í Taílandi

Maðurinn var 54 ára gamall.
Maðurinn var 54 ára gamall. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenskur karlmaður á sextugsaldri fannst látinn á hóteli í Samut Prakan-umdæmi í Taílandi í morgun.

Engir sjáanlegir áverkar voru á líkinu.

Starfsfólk hótelsins segir að maðurinn hafi dvalið á hótelinu í tæpan mánuð, samkvæmt umfjöllun taílenska miðilsins Thaiger en DV greindi fyrst íslenskra miðla frá.

Samut Prakan er á höfuðborgarsvæði Taílands, suður af höfuðborginni Bangkok.

54 ára

Taílenski miðillinn hefur eftir rannsóknarlögreglumanninum Damrong Sukchusri að tilkynning hafi borist kl. 11.30 í dag um andlát erlends manns af óþekktum ástæðum á hóteli í Bang Phli-hverfinu í Samut Prakan.

Inni á hótelherbergi á annarri hæð fundu lögregluþjónar 54 ára íslenskan mann sem lá látinn við hlið rúmsins, klæddur svörtum bol og rauðum stuttbuxum.

Hann hafði verið látinn í að minnsta kosti 6 til 12 klukkustundir, að sögn lögreglu.

Við skoðun á líkinu sáust engin merki um að hann hefði látist vegna líkamsárásar eða annarra líkamlegra átaka. Í herberginu fundust aftur á móti nokkrar áfengisflöskur og bjórdósir, sem voru skráðar sem sönnunargögn.

Líkið var sent á Ramathibodi Chakri Naruebodindra-sjúkrahúsið til krufningar.

Hafði leigt herbergið í tæpan mánuð

Starfsmaður hótelsins sem kom að manninum látnum segir að hinn látni hefði leigt herbergið daglega og að jafnaði komið um kl. 10.30 á hverjum morgni til að skrá sig út af herberginu, samkvæmt umfjöllun Thaiger.

Maðurinn hafi dvalið einn á herberginu í tæpan mánuð. Starfsmaðurinn varð áhyggjufullur þegar maðurinn kom ekki niður á hefðbundnum tíma og kíkti því inn í herbergið þar sem hann kom að manninum látnum.

Lögreglu sem kom á vettvang grunar að maðurinn hafi drukkið óhóflegt magn af áfengi sem leiddi til andlátsins eða að undirliggjandi heilsufarsástand hafi valdið andlátinu.

Beðið er eftir niðurstöðum krufningar, að sögn lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert