Íslenskri konu tókst loks að stefna fyrrverandi

Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness 4. september.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness 4. september. mbl.is/Hákon

Íslenskri konu tókst loksins að höfða mál á hendur fyrrverandi eiginmanni sínum, fyrir Héraðsdómi Reykjaness, eftir að hafa ítrekað mistekist að birta manninum stefnu í málinu. Krefst hún þess að hann greiði sér 18 milljónir króna. 

Hjónin skildu að borði og sæng árið 2016 og var við það tilefni gerður fjarskiptasamningur sem fól meðal annars í sér að maðurinn myndi greiða konunni umræddar 18 milljónir króna. Það hefur maðurinn þó ekki gert. 

Erfiðlega hefur reynst að birta manninum stefnuna þar sem óvíst hefur verið um búsetu hans. Nú hefur hún þó verið birt í Lögbirtingablaðinu. 

Gat ekki staðfest að maðurinn væri á Spáni

Konan hefur reynt að stefna manninum síðan í lok árs 2021 þegar tekin var fyrir og samþykkt kyrrsetningarbeiðni konunnar í tilgreindum eigum mannsins. 

Hún fékk útgefna réttarstefnu í byrjun janúar 2022 sem birt var í Lögbirtingablaðinu um miðjan mánuðinn og þingfest um mánuði síðar. Á þeim tíma hafði konan þó ekki staðfestar upplýsingar um það hvar maðurinn væri staddur í heiminum þótt hana grunaði að hann væri á Spáni. 

Þar sem henni tókst ekki að staðfesta grun sinn innan þess frests sem hún hafði til þess taldi konan sér óheimilt að birta stefnuna samkvæmt spænskum lögum og birti hún stefnuna því í Lögbirtingablaði. 

Málinu var aftur á móti vísað frá dómi án kröfu 9. mars 2022 þar sem dómurinn taldi víst að maðurinn væri búsettur á Spáni og að konunni hefði borið að birta honum stefnuna samkvæmt þeim lögum sem þar gilda. 

Freistuðu þess að dómtaka málið 

Var ný réttarstefna gefin út í kjölfarið, hún þýdd og þess freistað að birta hana samkvæmt spænskum lögum. Málið var þingfest í byrjun september 2022 og farið fram á frest á meðan beðið var eftir upplýsingum um afdrif stefnunnar frá spænskum yfirvöldum. 

Vegna ákvarðana er vörðuðu stjórn Fer Fasteigna var þess freistað að dómtaka málið á grundvelli þess að stefnan hefði einnig verið birt í Lögbirtingablaði og þeirri staðreynd að „stefna var annaðhvort birt eður ey og væru öll skilyrði þess að dómtaka málið fullnægt,“ eins og það er orðað í stefnunni.

Málinu var engu að síður vísað frá dómi í júlí á síðasta ári og aldrei fengust nokkrar upplýsingar um að stefna hefði verið birt í málinu á Spáni. Spænsk yfirvöld hafa því annaðhvort látið undir höfði leggjast að birta stefnuna eða þá að maðurinn á í reynd ekki heimili á Spáni. 

Tókst að stefna því maðurinn var á landinu 

Í byrjun október á síðasta ári bárust konunni upplýsingar um að maðurinn væri á landinu. Hún freistaði þess því enn á ný að höfða málið á hendur honum og birti stefnu þar sem málið var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. 

Málinu var aftur á móti vísað frá dómi, enn á ný, um miðjan janúar á þessu ári þar sem það hefði átt að vera höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Konan höfðaði því málið enn á ný í umsömdu varnarþingi. 

Þá bendir konan á það í stefnunni að ósanngjarnt væri að krafa hennar félli niður fyrir það eitt að illa hafi gengið að birta stefnuna þar sem gögn gefi það til kynna að manninum hafi allan tímann verið fullkunnugt um tilraunir hennar til að fá kröfuna greidda. 

Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness 4. september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert