Kostnaður áætlaður 8,6 milljarðar

Verktakar standa í ströngu við gerð varnargarða í Svartsengi til …
Verktakar standa í ströngu við gerð varnargarða í Svartsengi til varnar hraunflæði vegna hinna tíðu eldsumbrota á Reykjanesskaga. mbl.is/Eyþór

Áætlaður heildarkostnaður Vegagerðarinnar vegna varna innviða í Svartsengi og Grindavík með gerð varnargarða er talinn geta orðið 8,6 milljarðar króna og er þar tiltekinn þegar áfallinn kostnaður sem og áætlaður kostnaður vegna þeirra verkefna sem fyrirhuguð eru.

Þetta kemur fram í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Samkvæmt þessu hefur kostnaðurinn hækkað nokkuð frá því sem gert var ráð fyrir í júní sl. og kemur það til vegna viðbragða við síðasta eldgosi við Svartsengi.

Kostnaðartölurnar taka til ársins 2023 og fyrstu sex mánaða þessa árs. Sl. laugardag var frá því greint að kostnaður almannavarna ríkislögreglustjóra vegna hamfaranna á svæðinu næmi tæpum fjórum milljörðum á sama tímabili. Alls gerir þetta því um 12,5 milljarða króna.

4,6 milljarðar á hálfu ári

Kostnaður Vegagerðarinnar vegna varnargarðanna árið 2023 nam tæpum 1,7 milljörðum, en rúmum 4,6 milljörðum fyrstu sex mánuði þessa árs sem gerir alls ríflega 6,4 milljarða.

Þá er ótalinn kostnaður vegna eftirlits, umsjónar o.fl. sem telst vera rúmar 236 milljónir, vega og slóða fyrir vinnuvélar og viðbragðsaðila upp á 165 milljónir rúmar, leiðslna og lagna um 45 milljónir, auk flóðavarna sem vega létt í þessu samhengi.

Stærsti kostnaðurinn vélakostnaður

Sé kostnaður vegna varnargarðanna brotinn niður í verkþætti kemur í ljós að stærsti kostnaðarliðurinn er vélakostnaður sem nemur tæpum 2,5 milljörðum árið 2023 og það sem af er þessu ári.

Kostnaður vegna vinnu er næsthæstur, tæpir 1,4 milljarðar, efniskostnaður er ríflega 170 milljónir, kostnaður vegna tækjaflutninga er 18 milljónir og annar kostnaður um 100 milljónir. Þessar kostnaðartölur eru án virðisaukaskatts.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert