Opna staðinn aftur eftir að félagið fór í þrot

Dragon Dim Sum opnaði fyrst við Bergstaðastræti.
Dragon Dim Sum opnaði fyrst við Bergstaðastræti.

„Dragon Dim Sum opnar aftur og mér finnst mjög líklegt að það verði með haustinu,“ segir Þórir Jóhannsson fjárfestir.

Dragon Dim Sum að Geirsgötu 9 var lokað í vor en að sögn Þóris verður veitingahúsið brátt opnað að nýju í öðru húsnæði.

„Við erum ekkert að hætta, það þarf bara að finna rétta húsnæðið,“ segir Þórir en viðskiptavinir Dragon Dim Sum lýstu sumir áhyggjum af rekstrinum á samfélagsmiðlum þegar staðnum við Geirsgötu var lokað.

Stóð til að opna aftur sem fyrst

Þórir kemur ásamt fleirum að rekstri nokkurra þekktra veitingastaða á Íslandi og meðal þeirra er Matbar á Hverfisgötu en Dragon Dim Sum var upprunalega afsprengi þess staðar.

Spurður hvers vegna staðnum á Geirsgötu var lokað svarar Þórir að fé­lagið sem rak staðinn hafi farið í þrot. Nefnir hann að rekstrarskilyrði veitingastaða hafi verið mjög erfið síðustu misseri og skuldir vegna samkomutakmarkana erfiðar.

Bætir hann við að þá hafi hann, í samvinnu við aðra, keypt þrotabúið og hafið leit að nýju húsnæði. 

Til stóð að opna annan stað um leið en Þórir útskýrir að þá hafi sumarið gengið í garð og verkefnið verið sett „á ákveðinn ís“ yfir háannatímann, meðal annars vegna sumarleyfa.

Hrafnkell Sigríðarson matreiðslumaður og Þórir Jóhannsson koma báðir að rekstri …
Hrafnkell Sigríðarson matreiðslumaður og Þórir Jóhannsson koma báðir að rekstri Matbar og Dragon Dim Sum. mbl.is/Arnþór

Nýta eldhúsið á Hótel Borg

Þórir tekur fram að þó veitingastaðurinn að Geirsgötu hafi lokað þá hafi starfsemi Dragon Dim Sum ekki alveg hætt og að hægt sé að fá svokallaða Dragon Dim Sum „dumplinga“ á Selfossi.

„Við sem stóðum að rekstri Dragon Dim Sum erum teknir við veitingarekstrinum á Hótel Borg og erum að nýta eldhúsið þar til að fram­leiða dumplinga fyr­ir MENAM Dim Sum, austurlenskan veitingastað á Mjólkurbúinu, mathöllinni á Sel­fossi,“ seg­ir hann.

Áhugi á staðnum enn til staðar

„Það er pláss á markaðinum fyrir svona stað,“ bætir hann við og lýsir því að matur Dragon Dim Sum hafi notið mikilla vinsælda og að hugmyndin að veitingastaðnum sé sniðug.

„Ég á von á því að við opnum hérna í bænum aftur bara mjög fljótlega, einhvern tímann með haustinu,“ segir hann en kveðst ekki geta upplýst um hvaða húsnæði kemur til greina fyrir nýja staðinn.

Spurður hvort starfsemin verði með sama hætti og hún var á staðnum við Geirsgötu svarar Þórir: „Við stefnum að því en endanleg útfærsla á eftir að koma í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert