Réðust á Íslendinga úr launsátri og skildu eftir poll af blóði

Eiginmaður konunnar og synir hennar tveir voru mikið særðir eftir …
Eiginmaður konunnar og synir hennar tveir voru mikið særðir eftir árásina auk þess sem þeim blæddi mikið. Ljósmynd/WikipediaCommons

Menn sem réðust á íslenska fjölskyldu fyrir utan bar á grísku eyjunni Krít í nótt eru sagðir hafa beðið fjölskyldunnar í „launsátri“ fyrir utan barinn. Myndefni sýnir poll af blóði á vettvangi.

Eins og greint var frá í dag var ráðist á ís­lenska konu og fjöl­skyldu henn­ar í borg­inni Heraklíon í nótt. Lögreglan á Krít skoðar nú myndefni úr öryggismyndavélum til að finna gerendurna. Enginn er í lífshættu.

Grískir miðlar greina frá atburðarásinni.

Cretalive birti afmáða mynd af vettvangi þar sem greina má …
Cretalive birti afmáða mynd af vettvangi þar sem greina má blóðuga stéttina. Skjáskot/Cretalive

Konan sögð „afar fögur“

Samkvæmt krítverska miðlinum Cretalive sat íslenska konan, sem er 41 árs, á bar í borginni Heraklíón ásamt grísk-kanadískum eiginmanni sínum, 49 ára, og sonum sínum tveimur, sem eru 18 og 21 árs.

Þar munu fjórir ungir krítverskir menn hafa komið að fjölskyldunni og „sagt eitthvað“ um íslensku konuna, samkvæmt heimildum Cretalive, sem tekur fram að konunni sé lýst sem „afar fagurri“.

Þá eiga einhver orðaskipti að hafa átt sér stað á milli fjölskyldunnar og ungu Krítverjanna inni á barnum en síðan gengu Krítverjarnir út. Þeir voru þó ekki farnir fyrir fullt og allt.

Réðust á þau úr „launsátri“

Þegar fjölskyldan gekk út af barnum biðu árásarmennirnir eftir henni og réðust á hana, að sögn grískra miðla.

Þeir munu hafa kýlt fjölskylduna og sparkað í hana, samkvæmt kvörtun fjölskyldunnar til lögreglu.

Eiginmaður konunnar og synir hennar tveir voru mikið særðir eftir árásina auk þess sem þeim blæddi mikið. Þá flúðu árásarmennirnir af vettvangi. 

Öll fjögur voru flutt með sjúkraflutningabíl á Venizelio-spítalann í borginni. Konan og synir hennar eru útskrifuð en er eiginmaður hennar enn á spítala. Hann er ekki talinn vera í lífshættu.

Þau tilkynntu líkamsárásina til lögreglu, sem leitar nú að hópnum. Lögreglan segist nú skoða öryggismyndavélar til að bera kennsl á gerendur. Það sé aðeins tímaspursmál hvenær þeir finnist.

Veistu meira? Þú getur sent okkur ábendingar á frettir@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert