Runólfur gagnrýnir nauðungarfrumvarp

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala. mbl.is/Arnþór

Forstjóri Landspítalans hefur áhyggjur af því að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um réttindi sjúklinga, sem tekur til takmarkana á beitingu nauðungar, muni hafa öfug áhrif miðað við það sem lagt var upp með við gerð þess og hafa í för með sér aukna tíðni nauðungarvistana á spítalanum, fremur en að úr þeim dragi.

Þetta kemur m.a. fram í umsögn Runólfs Pálssonar forstjóra spítalans sem birt hefur verið á vef Alþingis.

Kemur þar fram að það sé mat spítalans að lög þessa efnis eigi ekki að taka gildi um næstu áramót, heldur ári síðar, þ.e. 1. janúar 2026.

Húsnæðið ekki til þess fallið að draga úr nauðung

Segir í umsögninni að markmið frumvarpsins sé að lögfesta meginreglu um bann við beitingu nauðungar og setja lagramma um það verklag sem viðhafa skuli þegar nauðsynlegt þyki að víkja frá þeirri meginreglu.

Bent er á að húsnæði Landspítalans sé ekki til þess fallið að draga úr nauðung og þannig ólíkt því húsnæði sem byggt hafi verið fyrir starfsemi geðsjúkrahúsa á Norðurlöndum á umliðnum árum.

Slík nútímahönnun legudeilda sem byggist á batamiðaðri nálgun dragi úr þvingunum á deildum spítala.

Óvissa kunni að fylgja

Telur spítalinn að óvissa kunni að fylgja því með hvaða hætti hægt sé að tryggja öryggi sjúklinga og starfsfólks, en óttast sé að tíðni alvarlegra atvika muni aukast sé kerfið gert jafn flókið og frumvarpið mælir fyrir um og orðalag frumvarpsins um þvingun og nauðung sé.

Það er mat spítalans að lögin þurfi að fela í sér að hægt sé að viðhalda mikilvægum úrræðum sem lúta að öryggi sjúklinga og starfsfólks.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert