Skriður féllu á fimm stöðum

Skriða í Hítardal sem féll árið 2018.
Skriða í Hítardal sem féll árið 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skriður féllu á fimm stöðum um landið, í það minnsta, um liðna helgi. Ein þeirra lokaði vegi í Svínadal í Dölum.

Gul viðvörun var í gildi vegna úrkomu og vinds á Faxaflóa og á Breiðafirði, en einnig var varað við vatnavöxtum og skriðuhættu.

Spár rættust, úrkoma var mikil á Vesturlandi og vatnavextir voru þar víða þar sem flæddi yfir vegi og tún.

Þetta segir á vef Veðurstofu Íslands.

Staðsetning skriða sem fregnir hafa borist af til Veðurstofu Íslands.
Staðsetning skriða sem fregnir hafa borist af til Veðurstofu Íslands. Kort/Veðurstofa Íslands

Skriða lokaði vegi

Tilkynnt var um skriður í Dölum, á Barðaströnd, Snæfellsnesi og í Hítardal á Mýrum.

Skriðan í Svínadal á lokaði vegi, á Barðaströnd voru líklega fjórar til fimm smáar skriður sem ekki náðu vegi, en vatn rann þar yfir veg vegna vatnavaxta.

Ein stór skriða var neðan við Klif, nálægt Snjódal með upptök ofan úr klettabeltinu og fleiri smærri spýjur í grennd.

Miklir vatnavextir og flóð

Um helgina mældist mesta sólarhringsúrkoma sem mæld hefur verið í júlímánuði á landsvísu í Grundarfirði á Snæfellsnesi og mesta úrkoma sem mæld hefur verið þar á einum sólarhring. Reyndist sólarhringsúrkoman nema 227 millimetrum.

Miklir vatnavextir voru við Grundarfjörð og vatn flæddi yfir vegi beggja vegna bæjarins, úr farvegi Ytri-Búðarár og Grundarár.

Vatnavextir voru einnig víðar á Vesturlandi. Meðal þeirra áa þar sem vatnshæð óx mikið voru Staðarhólsá á Skarðsströnd, Vatnsdalsá á Barðaströnd og Haffjarðará á Snæfellsnesi.

Í Gufudal óx Gufudalsvatn um 1,5 metra og vatn flæddi yfir tún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert