Skyldasti ættingi SARS „var í þeirra eigin ísskáp“

Matt Ridley hélt rabbfund í dag í stofu HT-101 í …
Matt Ridley hélt rabbfund í dag í stofu HT-101 í Háskóla Íslands. mbl.is/Arnþór

„Ég held að það sé mun líklegra að þetta hafi byrjað með leka úr rannsóknarstofu heldur en með smiti úr dýri.“

Þetta segir Matt Ridley vísindahöfundur um kórónuveiruna en hann hélt svokallaðan rabbfund í Háskóla Íslands í dag í umboði Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál. Fundurinn var þétt setinn – í raun var stofa HT-101 smekkfull – og jafnvel nýsköpunarráðherra lét sig ekki vanta.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fylgdist með Matt …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fylgdist með Matt Ridley færa rök fyrir því að kórónuveiran gæti hafa byrjað í rannsóknarstofu í Wuhan. mbl.is/Arnþór

Matthew White Ridley er þekktur vísindahöfundur og í raun margt annað líka; greifi, fyrrverandi þingmaður breska íhaldsflokksins, fyrrverandi stjórnarformaður Northern Rock-bankans í Bretlandi, blaðamaður og svo má lengi telja.

Að mennt er hann samt dýrafræðingur en hefur á liðnum áratugum skrifað fyrir hina ýmsu miðla, aðallega blöðin Economist og Times. Skoðanir hans á loftslagsbreytingum og nú kenningar um kórónuveiruna hafa vakið athygli heims á síðustu árum.

Ridley ræddi við blaðamann mbl.is.

Var á hinu gagnstæða í upphafi

Ridley skrifaði bók um covid-kenningar sínar árið 2021 í samvinnu við sameindalíffræðinginn Alinu Chan. Þar leggja þau fram sinn rökstuðning við möguleikanum á því að SARS-Cov-2, Covid-19, eða bara kórónuveiran í daglegu tali, eigi rætur að rekja til rannsóknarstofu í Wuhan. Bókin fékk blendnar móttökur en sjónarmiðin vöktu þó athygli.

Í upphafi faraldurs voru slíkar vangaveltur nefnilega almennt álitnar sem samsæriskenningar og fyrst taldi Ridley þetta sjálfur afar ólíklegt.

En hann skipti greinilega um skoðun. Og nú virðast æ fleiri farnir að líta alvarlega á þennan möguleika. En hvers vegna?

Grunsemdir Ridleys byggjast á ýmsu. Allra helst er það tregðan að hálfu kínverskra stjórnvalda til að aðstoða við rannsókn á uppruna veirunnar og gögn sem hann segir sýna fram á að rannsóknir á veirutegundum náskyldum Covid hafi verið fyrirhugaðar á rannsóknarstofunni í Wuhan (þó er misskýrt hvernig þeim áformunum hafi síðan verið fygt eftir).

Matthew White Ridley er einn kunnasti vísindahöfundur heims.
Matthew White Ridley er einn kunnasti vísindahöfundur heims. mbl.is/Arnþór

Upp á kannt við marga veirufræðinga

En meðal veirufræðinga er algengasta kenningin sú að Covid-19 eigi uppruna að rekja til Huanan-markaðsins í Wuhan í Kína, kenning sem Ridley virðist nú nánast hafna. Sumir vísindamenn hafa jafnvel vísað kenningum um leka úr rannsóknarstofu á bug og bent á að „engin sönnunargögn“ styðji við þær kenningarnar.

Hvers vegna er Ridley þá ekki sannfærður?

„Tja, yfirvöld í Kína telja ekki einu sinni að þetta hafi byrjað í Huanan. Þau hafa gefist upp á þeirri kenningu,“ svarar dýrafræðingurinn í samtali við mbl.is og nefnir að einn helsti veirufræðingur Bandaríkjanna, Ralph Baric telji Huanan-kenninguna ólíklega.

„Það er rétt, það voru tvær ritgerðir 2022 þar sem segir að „við höldum að þetta byrjaði þarna, því það er þyrping [af smitum] í kringum markaðinn, og jafnvel [smit] sem ekki tengdust voru nálægt markaðnum“ en við vitum að niðurstaða ritgerðanna er sú vegna þess að í upphafi faraldurs var leitað sérstaklega að smitum þar, vegna þess að í upphafi lágu flestir smitaðir á spítölum nálægt markaðnum [þ.e. í Wuhan].“

„Engin smituð dýr“

Ridley segir að þau tvö afbrigði veirunnar sem fundust í sýnum frá af Huanan-markaðnum hafi líklegast þróast út frá eldra afbrigði. Smitin á Huanan-markaðnum hafi því orðið of seint í faraldrinum til þess að markaðurinn sé upphafsreitur veirunnar. Þá hafi engin smituð dýr fundist – dýrin á markaðnum voru öll drepin áður en vísindamenn gátu rannsakað markaðinn.

„Engin smituð dýr, engir smitaðir kaupmenn, engir smitaðir kokkar,“ segir hann. En í SARS-faraldrinum 2002, sem mætti kalla hálfgerðan forföður kórónuveirufaraldursins, hafi smituð dýr fundist á fleiri en einum markaði.

„Já, það hefur verið tilhneiging í vísindatímaritum að gefa út einhverjar af þessum ritgerðum, en margar þeirra reynast vera rangar,“ fullyrðir hann enn fremur og tekur fram að sömu tímarit séu jafnframt treg að birta ritgerðir þar sem skömminni er skellt á rannsóknarstofuna.

Vill sjá gögnin

En er Ridley sjálfur alveg sannfærður um að þetta hafi allt byrjað í rannsóknarstofu?

„Nei, ég verð aldrei gjörsamlega sannfærður fyrr en við vitum nákvæmlega hvað gerðist. Kínverjar hafa verið ófúsir að sýna gagnsæi til dagsins í dag,“ svarar hann.

Enn fremur segir Ridley að til sé gagnagrunnur á Wuhan-rannsóknarstofunni sem Kínverjar neiti að opinbera. Hann telur hugsanlegt að þar sé að finna skráningu um veiru sem sé náskyld sóttinni sem kom seinna til með að setja heiminn á hliðina.

„Þau gætu gefið út þennan gagnagrunn og sannað að veiran – eða hugsanlegar móðurveirur – væri ekki á rannsóknarstofunni. Þau neita að gefa út gagnagrunnin, enn þann dag í dag. Það er furðulegt. Hvers vegna bera þau ekki sakirnar af sér?“

Það sem gæti sannfært hann um hitt

Hvað gæti sannfært þig um hitt, þ.e. að veiran hafi í raun smitast úr dýri í mann?

„Smitað dýr. Ef við finnum til dæmis marðarhund með veiruna sem líktist henni upp á 98% og væri greinilega af sama ættlegg og allar veirurnar sem finnast í mannfólki. Þá væri ég sannfærður á einni nóttu,“ svarar hann.

En Ridley tekur seinna fram að hann eigi þar við um dýr sem myndu hafa smitast áður en faraldurinn hófst meðal manna.

Höfum við sum sé ekki fengið slík sönnunargögn?

„Það er búið að skima 80 þúsund dýr, um 400 frá þessum markaði og mörg önnur annars staðar frá. Þau hafa enn ekki fundið þessa veiru, eða einhverja sem líkist henni upp á 98%, í neinu dýri frá því áður en faraldur hófst.“

Hvers vegna vilja Kínverjar þá ekki vinna með okkur?

Hver telurðu að ástæðan sé fyrir því að Kínverjar vilji ekki vinna með okkur?

„Ég held að Kínverjar hafi tekið ákvörðun snemma um að þeir vildu ekki vera kennt um að hafa með óábyrgum hætti og áhættusömum rannsóknum óvart drepið 28 milljónir manns. Það er skiljanlegt að þeir vilji komast undan ábyrgð.“

Það sé aftur á móti óviðunandi að þeir girði sig af frá restinni af heiminum með grjótgarði. Myndi þetta gerast í einhverju öðru landi væru kröfur gerðar frá alþjóðlegum heilbrigðisyfirvöldum að skoða rannsóknarstofurnar og gagnagrunni þeirra.

Hann grunar þó ekki að um efnavopnarannsóknir hafi verið að ræða. Heldur telur hann líklegast að vinnan snerist að því að fyrirbyggja fyrir hugsanlegan faraldur t.d. með því að vinna að bóluefni.

„Sönnunargögnin – sem benda til þess að þau voru að gera einmitt þær rannsóknir sem hafa leitt til þessarar veiru, í nákvæmlega þessari borg, hvergi annars staðar en í Wuhan – eru virkilega sterk,“ segir dýrafræðingurinn.

„Sönnunargögn, en ekki fullnægjandi sönnunargögn“

En eru einhver raunveruleg sönnunargögn sem benda til þess að þetta hafi byrjað þarna? Það kom t.d. fram í rannsókn að þessi veira hafi aldrei verið á rannsóknarstofunni?

„Þau voru með vírus með 96% líkindi á rannsóknarstofunni þegar faraldurinn hófst. Það er að segja að skyldasti ættingi SARS-Cov-2 þegar faraldurinn hófst var í þeirra eigin ísskáp,“ segir hann og nefnir einnig að áform hafi verið uppi á rannsóknarstofunni að setja klofnunarsvæði í veiru í fyrsta sinn.

„Það hefur aldrei gerst í SARS-legri veiru áður. Þetta [kórónuveiran] er eini vírusinn með slíkt klofnunarsvæði.“

Þá hafi einnig verið áform á um að skipta um áherslu á stofunni úr sars Sars yfir í frændafbrigði SARS sem líkist kórónuveirunni enn fremur.

„Það er atburðarás tilrauna, áforma og tillagna sem spáir nánast nákvæmlega fyrir þessari veiru,“ segir hann.

„Það eru sönnunargögn, en ekki fullnægjandi sönnunargögn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka