Þriðja tilboðið hugsanlega á leiðinni

mbl.is

Hugsanlegt er að þriðja tilboðið sé á leiðinni í þrotabú fyrirtækisins Skagans 3X.

Skiptastjóri þrotabúsins mun í dag funda með forsvarsmönnum íslensks fyrirtækis þess efnis, að sögn Haralds Benediktssonar, bæjarstjóra Akraness.

Nú þegar er verið að skoða til­boð frá íslenskum fjárfestum sem tek­ur til allra eigna þrotabús­ins auk fast­eigna þar sem starf­sem­in hef­ur verið hýst en eru ekki í eigu þrota­bús­ins.

Annað tilboð hefur einnig borist í hluta rekst­urs­ins frá fyrirtækinu KAPP.

„Samkvæmt okkar vitneskju eru þessi tvö tilboð formleg en við vitum aftur á móti af hreyfingum frá þriðja aðila sem er sömuleiðis til endurreisnar en ég veit ekki á hvaða stigi það er,“ segir Haraldur.

Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri Akraness.
Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri Akraness. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óttast að starfsemin flytji annað

Aðspurður segist hann ekki vera hissa á þessum áhuga og nefnir að hann sé einnig ánægður með að aðilar séu komnir sem vilja endurreisa í bænum.

Haraldur kveðst þó hafa áhyggjur af því ef Íslandsbanki telur það sér í hag að skipta fyrirtækinu upp.

„Við höfum ástæðu til að óttast það að bankinn horfi meira í eigin hag heldur en í heildarhag Akraneskaupstaðar,“ segir hann og bendir á að KAPP sé með starfsemi á höfuðborgarsvæðinu og að starfsemi Skagans 3X gæti því flust þangað.

„Þegar maður skoðar hverjir eru eigendur KAPP, sýnist mér Íslandssjóðir [sem er í eigu Íslandsbanka] vera þar stór aðili. Ég hef áhyggjur af þessari þróun.“

Eins og komið hefur fram er húsnæðið þar sem Skaginn 3X var með starfsemi ekki í eigu þrotabúsins.

Haraldur segir að til þess að hægt verði að hafa starfsemi þar áfram þurfi að ná samkomulagi við eigandann um afnot af húsnæðinu. Það sé ekki til að einfalda myndina að ekki sé allt í einni samstæðu. Haraldur kveðst þó vona að samtalið við hann verði uppbyggilegt.

Nóg framboð af lóðum 

Spurður út í mögulegar lóðir annarstaðar á Akranesi fyrir starfsemina segir hann að verið sé að ljúka gatnagerð við nýtt hverfi fyrir atvinnuhúsnæði, þ.e. í svokölluðum Grænum iðngörðum rétt fyrir utan bæinn.

Bæði sé mikið framboð af lóðum fyrir atvinnuhúsnæði á Akranesi og hagstætt að byggja.

Hann nefnir þó að húsnæðið þar sem Skaginn 3X var með starfsemi hafi að hluta til verið byggt utan um tækin og tólin sem þar eru. Ekki sé auðvelt að flytja þau í burtu þótt annar taki þau yfir.

„Þetta er svolítið stórt verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert