20 gráða hiti margfalt líklegri úti á landi

Trausti segir mestu líkurnar á að hitta á 20 gráður …
Trausti segir mestu líkurnar á að hitta á 20 gráður á landinu á Hallormsstað. mbl.is/María Matthíasdóttir

Frá aldamótum hefur hitinn 39 sinnum náð 20 gráðum í Reykjavík.

Á sama tímabili hefur sami hiti mælst 189 sinnum á Akureyri.

Á síðustu 27 árum hefur hitinn 330 sinnum náð 20 gráðum á Hallormsstað og 50 sinnum á Vestfjörðum.

Þetta segir Trausti Jónsson veðurfræðingur í samtali við mbl.is.

Trausti Jónsson veðurfræðingur.
Trausti Jónsson veðurfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mestu líkurnar á 20 gráðum á Hallormsstað

„Ef við lítum til þess hvar mestar líkur eru á að hitinn nái 20 gráðum á landinu, þá er það á Norðaustur- og Austurlandi. Líkurnar þar eru næstum því helmingi meiri heldur en við Faxaflóa,“ segir Trausti.

Trausti segir mestu líkurnar á að hitta á 20 gráður á landinu á Hallormsstað og að líkurnar séu eiginlega engar á Garðskagavita, hinum megin á landinu.

„Í Húsafelli eru sex sinnum meiri líkur á að hitta á 20 stiga hita heldur en í Reykjavík og það eru fimm sinnum meiri líkur á að hitta á 20 stiga hita á Akureyri heldur en í Reykjavík.“

Hann segir líkurnar minnstar á Vestfjörðum, eða um helmingi minni en á Faxaflóa.

„Það eru meiri líkur á 20 gráða hita á miðhálendinu heldur en á Vestfjörðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert