81% ánægðir með Guðna

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands nýtur vinsælda meðal landsmanna miðað …
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands nýtur vinsælda meðal landsmanna miðað við könnun Maskínu. mbl.is/Eyþór

Ný könnun Maskínu sýnir að 81% landsmanna segjast ánægðir með störf Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands síðasta ár hans í embætti. Til samanburðar voru 59% ánægðir með störf forvera hans Ólafs Ragnars Grímssonar síðasta ár hans í embætti.

Þetta kemur fram í könnun Maskínu sem birtist í dag.

Flestir voru ánægðir með störf Guðna árið 2018 þegar 82% sögðust ánægðir með hans störf. Árið 2016 sögðust 71% svarenda vera ánægðir með störf Guðna sem var lægsta hlutfall í hans tíð sem forseti.

Kjósendur Samfylkingarinnar mjög ánægðir

Samkvæmt könnuninni voru um 13% svarenda sem sögðust hvorki ánægðir né óánægðir með störf Guðna sem forseti Íslands. 3,2% sögðust frekar óánægðir og 3% sögðust mjög óánægðir.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Austurvelli á 17. júní.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á Austurvelli á 17. júní. mbl.is/Eyþór

Um 71% svarenda sem sögðust myndu kjósa Samfylkinguna voru mjög ánægð með störf Guðna. Þar á eftir koma kjósendur Vinstri Grænna en 68,5% svarenda sem sögðust kjósa Vinstri Græn voru mjög ánægð með störf hans.

Óánægjan mest meðal Miðflokksmanna

Flestir svarenda sem sögðust hvorki ánægðir né óánægðir með störf Guðna sögðust kjósa Flokk Fólksins. Tæplega 13% svarenda sem sögðust kjósa Miðflokkinn sögðust mjög óánægðir með störf Guðna. 6,4% kjósenda Sjálfstæðisflokksins svöruðu á sömu leið.

Könnunin fór fram í janúar, febrúar, maí og júní á þessu ári. Samtals voru svarendur 3.339 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert