Eldingar gætu fylgt skúrum í dag

Elding í Bláskógabyggð í júlí 2021.
Elding í Bláskógabyggð í júlí 2021. Ljósmynd/Ævar Eyfjörð Sig­urðsson

Í dag verður þungbúið á landinu og er spáð vætu í flestum landshlutum, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Heldur birti til eftir hádegi  „en þó eru líkur á skúradembum sunnantil seinnipartinn, jafnvel með eldingum um tíma suðvestanlands,“ segir í hugleiðingunum.

Þó er þessu spáð með þeim varnagla að eldingaspár séu mjög óvissar.

Óstöðugt loft á morgun

Á morgun verður áfram óstöðugt loft yfir landinu og víða skúrir, sérlega síðdegis. Um helgina er spáð að norðlægari vindum.

„Það þykknar upp með rigningu á Norðurlandi á laugardag og hiti fer lækkandi á þeim slóðum, en í öðrum landshlutum verða áfram svipað veður. Almennt skýjað og víða væta á sunnudag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert