Fernuvörur frá Örnu ófáanlegar vegna bilunar

Fyrirtækið hefur þó enn getað pakkað í dósir.
Fyrirtækið hefur þó enn getað pakkað í dósir. mbl.is/Hari

Bilun í fernupökkunarvél hjá mjólkurvinnslunni Örnu hefur gert það að verkum að engar vörur í fernum hafa borist í verslanir frá fyrirtækinu um nokkurt skeið. Framkvæmdastjóri Örnu segist vona að vörurnar komi aftur í búðir í byrjun næstu viku. 

„Það bilaði hjá okkur fernupökkunarvél sem pakkar í fernur, mjólk, AB-mjólk og jógúrt og annað, við höfum ekki getað greitt það út,“ segir Hálfdán Óskarsson framkvæmdastjóri Örnu í samtali við mbl.is

Bilun kom upp í fernupökkunarvél Örnu á mánudaginn í síðustu viku og þurfti að kalla til viðgerðarmenn að utan. Það hefur reynst erfitt vegna sumarleyfa en mennirnir eru væntanlegir til landsins á morgun.

„Á þriðjudaginn í næstu viku ættu vörur að fara að berast aftur í búðir,“ segir Hálfdán. Viðgerðarmenn muni vinna í vélinni næstu daga. 

Missa út sölu í tvær vikur

Spurður hvort þetta hafi mikil áhrif á fyrirtækið segir hann erfiðast að geta ekki skaffað vörur til viðskiptavina. Erfitt sé að missa út sölu í tvær vikur. 

„Svona er þetta bara stundum, þegar tæki bilar er ekkert við því að gera svo sem,“ segir Hálfdán. 

„Við missum út sölu, eins og núna, í tvær vikur, á fernuvörum. Við erum náttúrulega að pakka í dósir og dósavörur, gríska jógúrt, skyr og annað þessháttar en auðvitað hefur þetta áhrif. Þetta er mjög slæmt þegar þetta gerist en svona er þetta bara,“ segir Hálfdán. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert