Fjölskyldan í áfalli: Hafa borið kennsl á tvo menn

Íslensk kona og fjölskylda hennar urður fyrir alvarlegri líkamsárás á …
Íslensk kona og fjölskylda hennar urður fyrir alvarlegri líkamsárás á Krít í vikunni. Ljósmynd/Colourbox

Lögreglan á Krít telur sig hafa borið kennsl á tvo menn af fjórum sem réðust á íslenska konu og fjölskyldu hennar í vikunni. Fjölskyldan segir mennina hafa ráðist á sig að „ástæðulausu“. Ferðamálaráðherra Grikklands íhugar að hafa samband við þau.

Eins og greint var frá í gær réðust fjórir Krítverjar á fjölskyldu 41 árs íslenskrar konu, þar sem hún gekk út af bar í borginni Heraklíon aðfaranótt miðvikudags.

Fjölskyldan samanstendur af henni, 18 og 21 árs sonum hennar, 14 ára dóttur hennar og grísk-kanadískum eiginmanni hennar.

49 ára eiginmaður hennar, sem er frá sveitarfélaginu Anógeiu á Krít, er alvarlega særður eftir árásina en ekki talinn í lífshættu.

Samkvæmt upplýsingum sem grískir miðlar hafa frá spítalanum mun hann líklega þurfa að liggja á spítalanum í nokkra daga til viðbótar og jafnvel að gangast undir frekari aðgerðir.

Allir aðrir fjölskyldumeðlimir eru útskrifaðir af spítalanum.

Cretalive birti afmáða mynd af vettvangi þar sem sjá mátti …
Cretalive birti afmáða mynd af vettvangi þar sem sjá mátti blóðuga stéttina. Skjáskot/Cretalive

31 árs og 32 ára

Lögreglan hefur – með aðstoð fjölskyldunnar – náð að bera kennsl á 31 árs mann frá Mýlópótamós og einn 32 ára mann frá sveitarfélaginu Malevízi, sem grunaðir eru um að hafa ráðist á fjölskylduna.

Lögreglan leitar þeirra auk tveggja sem enn á eftir að bera kennsl á. Patrís greinir frá því að annar þeirra, sá sem er 31 árs, hafi verið fundinn.

Samkvæmt fréttaumfjöllun á Grikklandi virðist þetta ekki vera í fyrsta sinn sem mennirnir komast á kast við lögin. 

Sígarettustubbur sem olli „kveikjunni“ að árásinni

Samkvæmt vitnisburði er fjölskyldan í áfalli eftir árásina. Hún kveðst dýrka Krít og sækja eyjuna heim a.m.k. tvisvar á ári. Þau segja að ráðist hafi verið á þau að „ástæðulausu“.

Í yfirlýsingu til grískra fjölmiðla segja konan og synir hennar að atburðarásin hafi byrjað þegar þau ætluðu að yfirgefa barinn.

Þrír af fimm fjölskyldumeðlimum hafi þegar gengið út á meðan faðirinn og annar sonurinn hafi enn verið inni að greiða fyrir drykkina sína.

Þegar feðgarnir höfðu gengið út af barnum lagði einn maður úr stórum Krítverjahóp logandi sígarettustubb á bakið á föðurnum, samkvæmt því sem grískir miðlar hafa eftir yfirlýsingunni.

Þá á faðirinn að hafa snúið sér að Krítverjanum, virt hann fyrir sér og fylgst með því hvernig hann hygðist hreyfa sig.

Þarna virðist „kveikjan“ hafa orðið að reiði Krítverjanna, eins og miðillinn Cretalive hefur eftir yfirlýsingunni, og þá hófust barsmíðarnar fyrir utan barinn.

Íslenska konan og 14 ára dóttir hennar reyndur að stöðva árásarmennina er þeir veittu föðurnum högg á höfuð og búk. Á endanum mættu viðbragðsaðilar og þrjótarnir flúðu vettvang. Á myndum má sjá blóðuga stétt eftir líkamsárásina.

Fjölskyldan var öll flutt á spítala en mis skýrt er hversu alvarlegir áverkar voru á fólkinu.

Ferðamálaráðuneytið haft samband

Líkamsárásin hefur vakið mikla athygli á Krít, og í raun á Grikklandi öllu.

Olga Kefalogíanni, ferðamálaráðherra Grikklands, segist íhuga að hafa samband við fjölskylduna, að sögn Cretalive.

Fulltrúar ráðuneytisins hafa þá einnig heimsótt fjölskylduna á spítalanum. Þá hafa sumir ættingjar mannsins frá Anógeiu einnig komið að heimsækja fjölskylduna á spítalann, samkvæmt Cretalive.

Patrís

Cretalive

Cretalive

Veist þú meira? Þú getur sent okkur ábendingar á frettir@mbl.is og heyrt í okkur í síma 669-1200.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert