Grípa til aðgerða vegna hraðaksturs

Seltjarnarnes.
Seltjarnarnes.

Skipulags- og umferðarnefnd Seltjarnarnesbæjar hefur hafið undirbúning að endurskoðun á umferðaröryggisáætlun. Nefndin skoðar hvað hægt sé að gera til að ná niður hraðakstri og stöðva framúrakstur á Norðurströnd.

Þetta segir Svana Helen Björnsdóttir, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, hefur lýst áhyggjum sínum af hraðakstri á Norðurströnd í mörg ár. Þá hafa íbú­ar bæj­ar­ins einnig lýst áhyggj­um af hraðakstri á veg­in­um í face­bookhópi ætluðum íbú­um bæj­ar­fé­lags­ins.

Útfærslan í skoðun

„Í þeirri umferðaröryggisáætlun sem er enn í gildi kom fram að það þyrfti að lækka hraða á Norðurströnd og hann var lækkaður úr 60 km í 50 km. Það virðist ekki duga til,“ segir Svana.

Hún segir hraðaksturinn og framúraksturinn sérstaklega eiga sér stað á kvöldin og um helgar og að íbúar verði varir við þetta.

„Við höfum verið að tala um að setja upp umferðareyjur á þremur stöðum þar sem keyrt er inn á Norðurströndina og jafnvel að búa til einhverja hlykki til að draga úr hraða og stöðva framúraksturinn,“ segir Svana.

Fá verð í tilbúnar eyjur

Hún bætir við að nefndin ætli að fá verð í tilbúnar eyjur sem hægt er að skrúfa niður í götuna, en annars verði að láta steypa þær. 

„Við höfum líka verið að skoða það að búa til sveigjur, svipaðar og eru á Ægisíðu. Þá er ekki hægt að keyra svona hratt, ökumenn verða að hægja á sér,“ bendir Svana á. 

„Við ætlum að láta sérfræðinga í umferðaröryggismálum ráðleggja okkur í þessu, en við erum að undirbúa þetta og það verður eitthvað gert af þessu tagi. Útfærslan er bara í skoðun,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert