Hægir á íbúðauppbyggingu og verð hækkar enn

Talið er að samdráttur í ferðaþjónustu gæti minnkað þrýsting á …
Talið er að samdráttur í ferðaþjónustu gæti minnkað þrýsting á leigumarkaði með tíð og tíma. mbl.is/Árni Sæberg

Umsvif á fasteignamarkaði voru með mesta móti í maí vegna uppkaupa íbúða í Grindavík. Þannig hafa kaupsamningar á einum mánuði aldrei verið fleiri eða 1.760. 

Séu kaupsamningar fasteignafélagsins Þórkötlu teknir frá heildartölu kaupsamninga í maí voru þeir rúmlega 1.300. 

Á sama tíma hægir á íbúðauppbyggingu og aldrei hefur verið byggt jafn lítið af sérbýliseignum á höfuðborgarsvæðinu. 

Þetta kemur meðal annars fram í mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar (HMS). 

Verð eigna hækkar enn 

Samkvæmt skýrslu HMS hækkaði vísitala íbúðaverðs um 1,4% á milli mánaða í júní. Frá því í janúar hefur íbúðaverð hækkað um 6,4% sem jafngildir um 16% hækkun á ársgrundvelli. 

Þannig hefur íbúðaverð hækkað um 3,1% umfram vísitölu neysluverðs síðustu 12 mánuði. 

Á árinu hefur hátt hlutfall eigna selst á yfirverði sem gefur að skilja áframhaldandi hækkana á verði. 

Síðustu mánuði seldust um 20% eigna á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði en samkvæmt HMS er fasteignamarkaðurinn í jafnvægi þegar um 10% eigna seljast yfir ásettu verði. 

Ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar

Vísitala leiguverðs hækkaði um 2,5% í júní og um 7,4% á síðustu þremur mánuðum. Samkvæmt skýrslu HMS er talið að ferðaþjónustan hafi einhver áhrif á leigumarkaðinn og að samkeppni ríki á milli leigjenda og ferðamanna um leiguíbúðir. 

Framboð hótelherbergja eykst á sama tíma og herbergjanýting versnar.

Talið er að samdráttur í ferðaþjónustu gæti minnkað þrýsting á leigumarkaði með tíð og tíma í skýrslu HMS. 

Hægir á byggingarmarkaði

Fullbúnum íbúðum fjölgaði um 3.096 á liðnu ári, en á sama tímabili árinu áður voru 3.446 íbúðir fullbúnar. 

Þannig hægir á íbúðauppbyggingu á byggingarmarkaði og aldrei hefur verið byggt jafn lítið af sérbýliseignum og eru einungis 5% nýrra íbúða sem komið hafa inn á markað á árinu sérbýli. 

Hlutdeild sérbýliseigna er þó talsvert meiri á landsbyggðinni eða 38% það sem af er ári. Samkvæmt skýrslu HMS er í báðum tilfellum um að ræða sögulega lágt hlutfall, hvort sem að það sé á landsbyggðinni eða höfuðborgarsvæðinu. 

Þórkatla tekur við lánum heimila

Hrein ný íbúðalán námu einungis 2 milljörðum króna þrátt fyrir talsverða veltu á íbúðamarkaði. 

Uppgreiðslur óverðtryggðra lána námu um 20 milljörðum króna og samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands má sjá að útlán til fyrirtækja í þjónustu tengdri fasteignafélögum jukust um 28 milljarða í maí, en í sama flokki nam aukning lána 10 milljörðum í apríl og um 7 milljörðum í mars. 

Skýrsla HMS greinir frá því að hér megi rýna flokkunartilfærslu frá lánum heimila til fyrirtækja í tengslum við sölu Grindvíkinga á fasteignum sínum til Þórkötlu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert