Íbúum óhætt að dvelja í húsinu

Unnið var að hreinsiaðgerðum í dag og í gær.
Unnið var að hreinsiaðgerðum í dag og í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík vinnur nú að útskolun á lögnum í leiguíbúðum í Vatnsholti 1 og 3 eftir að Legionella-bakterían, sem veldur hermannaveiki, fannst í lögnum húsanna. Fyrr í sumar greindist einn íbúi með hermannaveiki. 

„Það er búið að reyna útskolun einu sinni, það skilaði árangri en ekki alveg fullnægjandi þannig það er verið að fara aftur í aðgerðir. Unnið hefur verið í þessu bæði í dag og í gær. Ef að það gengur upp þá gæti sýnataka farið fram eftir helgi og svo tæki það tíu daga að fá niðurstöður úr því,“ segir Guðjón Ingi Eggertsson, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Sturtunotkun takmörkuð

Á meðan á hreinsunaraðgerðum stendur hefur sturtunotkun í húsinu verið takmörkuð.

„Það er þangað til að það er búið að staðfesta að vöxtur bakteríunnar sé hættur, það getur verið mjög misjafnt hvað það tekur langan tíma,“ segir Guðjón, spurður hversu langan tíma ferlið gæti tekið. 

Hvað með íbúana?

„Þeim er alveg óhætt að búa heima hjá sér, þeir mega drekka vatnið og þvo hendur, það er aðeins sturtunotkunin sem er takmörkuð,“ útskýrir Guðjón.

Smitast ekki í gegnum drykkjavatn

Tómas Gíslason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, útskýrir að smitleiðin sé ekki í gegnum drykkjarvatn heldur úðasmit. 

„Þetta smitast með innöndun á svifúða sem getur borist í lungu,“ segir Tómas. 

Tómas og Guðjón geta þó ekki sagt til um hvort það sé aðeins einn íbúi smitaður.

„Við vitum ekki meira, við höfum ekki leitast eftir þeim upplýsingum. Það er hjá landlækni,“ segir Guðjón. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert