Kattaathvörf landsins að fyllast

Algengt er að fólk reyni að finna fósturheimili fyrir kettina …
Algengt er að fólk reyni að finna fósturheimili fyrir kettina sína á sumrin vegna ferðalaga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dýraverndunarfélagið Villikettir leitar nú að heimilum fyrir 200 villiketti um allt land, en öll kattaathvörf landsins eru að fyllast. Þetta segir Jacobina Joensen, formaður félagsins, í samtali við mbl.is. 

Félagið birti færslu á Facebook-síðu sinni fyrr í vikunni þar sem óskað var eftir fóstur- og framtíðarheimildum fyrir kettina vegna þessa vanda, en sami vandi spratt upp á sama tíma í fyrra.

Þá var ástæðan rakin til þess að villiköttum hefði fjölgað eftir að létt var á sóttvarnaaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins. Fjöldi fólks fékk sér kött í heimsfaraldrinum, svo þegar létt var á takmörkunum losaði fólk sig við kettina og henti þeim jafnvel út. 

Jacobina segir að við séum enn að sjá afleiðingar þess að svona margir hafi fengið sér kött í faraldrinum og svo losað sig við hann. 

Árstíðabundið vandamál

Spurð hvort vandamálið sé árstíðabundið segir hún að það sé mun algengara að fólk reyni að finna fósturheimili fyrir ketti á sumrin vegna ferðalaga.

„Svo kemur ágústmánuður og fólk fer að koma heim úr ferðalögum og við vonumst til að ástandið lagist þá,“ segir Jacobina. 

Hún segir að til þess að bregðast við þessum vanda sé mikilvægt að átta sig á því að það sé ekki hægt að hafa endalaus got, gelda þurfi kettina og örmerkja þá.

Ef kettirnir eru örmerktir eru þeir í örmerkjaskrá og auðveldara er að finna heimili kattarins, skyldi hann týnast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert