Láta vonskuveður ekki stoppa sig

Cedric og Roman klæddu sig eftir veðri.
Cedric og Roman klæddu sig eftir veðri. mbl.is/Eyþór

Um þessar mundir stendur ferðamannasumarið sem hæst og mikill fjöldi ferðamanna er á ferð um landið til að skoða náttúruperlur Íslands. Blaðamaður mbl.is hitti nokkra ferðamenn við Jökulsárlón í dag.

Það var mikil rigning og vindur þegar blaðamaður náði tali af þeim, en ferðamennirnir létu veðrið ekki stoppa sig og segja upplifunina af landinu góða. 

Cedric og Roman eru ferðamenn frá Spáni og Frakklandi og ferðast nú hringinn í kringum landið á húsbíl. Þeir eru vanir aðeins öðru veðurfari á þessum tíma árs, en þeir segja upplifunina af landinu ekkert síðri þrátt fyrir vonskuveður. Þá hefur lengi dreymt um að koma til landsins og segja ferðina „draumaferð lífs þeirra“.

Á meðan dvöl þeirra stóð gerðu þeir sér lítið fyrir og gengu Laugaveginn, sem þeir lýsa sem magnaðri upplifun. 

„Gönguleiðin var ótrúleg og það voru mikið af tilfinningum sem komu upp við að sjá þessa fallegu náttúru,“ segja þeir. 

Það var mikil úrkoma á Jökulsárlóni í dag þegar blaðamaður …
Það var mikil úrkoma á Jökulsárlóni í dag þegar blaðamaður náði tali af nokkrum ferðamönnum. mbl.is/Eyþór

Stoppa í IKEA á leið til Keflavíkur

Hollendingarnir Joyce, Jan, Linh og Bas dvelja á Íslandi í níu daga. Þau höfðu undirbúið sig vel fyrir komuna til landsins og létu rigninguna ekki stoppa sig, eins og sést á klæðaburði þeirra. 

Þau eru yfir sig hrifin af landinu og segja uppáhaldsáfangastaði sína vera Gullfoss og Jökulsárlón. Á meðan dvöl þeirra stóð smökkuðu þau hefðbundinn íslenskan mat eins og hákarl og harðfisk en voru ekkert sérstaklega hrifin. 

Þau halda aftur heim á leið á morgun, en á leiðinni á Keflavíkurflugvöll ætla þau að stoppa við í IKEA og gæða sér á sænskum kjötbollum. 

„Við förum til Reykjavíkur á morgun og svo daginn eftir keyrum við til Keflavíkur til að fara heim. En á leiðinni verðum við að stoppa í IKEA.“

Joyce, Jan, Linh og Bas segja Jökulsárlón einn þeirra uppáhaldsáfangastað.
Joyce, Jan, Linh og Bas segja Jökulsárlón einn þeirra uppáhaldsáfangastað. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert