Nauðgaði barnungri hálfsystur og fatlaðri konu

Fram kemur í mati tveggja geðlækna að hann hafi átt …
Fram kemur í mati tveggja geðlækna að hann hafi átt erfið uppvaxtarár. Ljósmynd/Þór

Karlmaður með væga þroskahömlun hefur verið sakfelldur fyrir að nauðga hálfsystur sinni þegar hún var barn og fyrir að nauðga annarri fatlaðri konu.

Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Refsing mannsins er felld niður en talið var þörf á að hann myndi sæta öryggisráðstöfun og var honum því gert að dvelja í búsetuúrræði fyrir fatlaða eða í annarri sambærilegri búsetu.

Stórfellt brot í nánu sambandi

Árið 2021 nauðgaði hann hálfsystur sinni og var hún þá barn. Gerði hann það með því að setja getnaðarlim sinn í leggöng hennar og endaþarm.

Er um stórfellt brot í nánu sambandi að ræða þar sem hann nýtti yfirburðastöðu sína gagnvart henni, en hann var eldri og hún treysti honum. Hann játaði skýlaust brot sín í þessu tilfelli.

Dró hana inn á salerni fatlaðra

Í seinna skiptið nauðgaði hann konu í frítímastarfi fatlaðra.

Hann dró konuna inn á salerni fatlaðra, færði skolbekk fyrir hurðina til að varna henni útgöngu, káfaði á brjóstum hennar og kynfærum, klæddi hana úr fötunum og nauðgaði henni. Reyndi hún ítrekað með orðum og í verki að fá hann til að láta af háttseminni.

Hann neitaði því að hafa framið verknaðinn en var það mat dómsins að framburður hans væri ekki trúverðugur.

Hélt fyrir munninn á henni

„Sagði brotaþoli að ákærði hefði fyrst talað við hana og sagt henni sögur og brandara en síðan dregið hana inn á salerni fyrir fatlaða en hún hafi verið búin að segja nei.

Hún hefði sparkað og lamið frá sér, haldið í hurðarkarminn og reynt að grípa í allt sem hún gat þannig að það yrði erfiðara að draga hana þangað inn,“ segir í dómnum um atvikalýsingu konunnar.

Hún bað hann um að hætta en hann hætti ekki.

„Hún hefði ekki viljað þetta og beðið ákærða um að hætta, lamið hann og sparkað í hann en hann hefði fært sig undan höggunum. Þá hefði hún reynt að ýta honum frá.

Ákærði hefði sett baðbekk fyrir hurðina og klætt sig og hana úr fötunum og hafi hún reynt að streitast á móti þegar hann klæddi hana úr. Hún hefði ekki getað kallað á hjálp þar sem ákærði hefði haldið fyrir munninn á henni,“ segir í atvikalýsingunni.

Með sjálfsvígshugsanir

Konan er með dæmigerða einhverfu, miðlungs þroskahömlun, flogaveiki, kvíðaröskun og ofnæmi. Þá er hún með skekkju í hrygg og laus í liðamótum.

Í skýrslu hjúkrunarfræðings á neyðarmóttökunni segir að það hafi komið fram hjá konunni að hún hefði verið með sjálfsvígshugsanir, með kvíða og sjálfsskaðahugsanir, eins og að stinga sig og að hún hefði áður verið með sjálfsvígshugsanir.

Var beittur ofbeldi af hálfu foreldra

Er það álit matsmanns að karlmaðurinn sé með athyglisbrest með ofvirkni, ódæmigerða einhverfu, skilningsmálröskun, blandnar sértækar þroskaraskanir, mótþróaþrjóskuröskun í æsku og álag í félagsumhverfi/áfall í æsku.

Var hann látinn taka greindavísitölupróf og var heildartalan 64, sem er frammistaða á stigi vægrar greindarskerðingar.

Fram kemur í mati tveggja geðlækna að hann hafi átt erfið uppvaxtarár, allt frá fæðingu, sem einkenndust af vanrækslu og ofbeldi af hálfu foreldra.

Er honum gert að greiða báðum fórnarlömbum tvær milljónir króna í miskabætur og yfir fimm milljónir króna í lögfræðikostnað og annan sakarkostnað.

Segðu frá - það er hjálp að fá

Embætti land­lækn­is bend­ir á að mik­il­vægt sé að þeir sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir segi einhverj­um frá líðan sinni, hvort sem er aðstand­anda eða hafi sam­band við Hjálp­arsíma Rauða krossins 1717, eða á net­spjalli 1717.is, við hjúkr­un­ar­fræðing í net­spjalli á heilsu­vera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-sam­tak­anna s. 552-2218. Píeta-sam­tök­in bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyr­ir aðstand­end­ur þeirra sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir.

Fyr­ir þau sem misst hafa ást­vin í sjálfs­vígi bend­ir land­læknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-sam­tök­un­um í síma 552-2218.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert