„Ég ákvað að vinna í eitt ár eftir stúdentsprófið þegar covid skall á og sótti svo um í félagsfræði við Kaupmannahafnarháskóla,“ segir Jófríður Úlfarsdóttir, Egilsstaðamær sem útskrifaðist sem dúx frá Menntaskólanum á Egilsstöðum á sínum tíma, rétt fyrir heimsfaraldurinn alræmda, og var nú að ljúka BA-prófi í félagsfræði í Kaupmannahöfn.
Hún tók sér hlé eitt ár frá námi og sótti einnig um í Háskóla Íslands en hugurinn stefndi þó til Danmerkur þar sem hún hafði búið sem barn, móðir Jófríðar, Halldóra Tómasdóttir, er íslensku- og dönskukennari við Menntaskólann á Egilsstöðum.
„Mig langaði alltaf að læra dönsku almennilega, við fluttum til Danmerkur þegar ég var eins árs, pabbi var í námi í byggingarfræði þar og mamma var að vinna,“ greinir félagsfræðingurinn frá en faðir hennar er Úlfar Trausti Þórðarson, brunahönnuður hjá Verkís, svo báðum foreldrum sé haldið hér til haga.
Jófríður bjó raunar sitt fyrsta æviár, fyrir Danmerkurdvölina, í Mosfellsbæ svo Egilsstaðabúsetan kom ekki til af neinum ættartengslum heldur vegna þess að móðir hennar fékk vinnu á safninu í Skriðuklaustri, í hinu rómaða Gunnarshúsi sem rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson reisti á upphafsári heimsstyrjaldarinnar síðari.
Víkur sögunni nú til sumarsins 2021 en Kaupmannahafnarháskóli dregur nemendur sína mjög á svörum um inngöngu. „Ég fékk ekki að vita fyrr en 28. júlí að ég hefði komist inn og svo byrjaði skólinn í lok ágúst svo ég hafði bara nokkrar vikur til að redda húsnæði og öllu áður en ég fór út sem var mjög stressandi auk þess sem ég þekkti eiginlega engan í Danmörku þannig að ég skil ekki hvernig ég fór að þessu,“ segir Jófríður og hlær dillandi hlátri.
Halldóra móðir hennar varð dóttur sinni stoð og stytta á ögurstundu – flutningi milli landa sem alltaf er nokkrum númerum stærra verkefni að gera en að segja. „Hún hjálpaði mér gegnum fyrstu dagana og svo var ein vinkona mín að flytja út í nám á sama tíma svo ég var mikið með henni fyrstu dagana og svo bara að byrja að ná dönskunni,“ segir Jófríður af því verkefni sem flestir Íslendingar sunnan við miðaldra leika sér að með því bara að vera á staðnum í Skandinavíulöndunum þremur sem notast við annað tjáningarform en finnsku.
„Allir í árganginum mínum voru danskir nema ein norsk stelpa og svo ég. Ef Íslendingar ætla að læra félagsfræði fara þeir bara í HÍ,“ segir Jófríður af þeim uppreisnaranda sínum að hefja grunnnám erlendis í fræðigrein sem hinn almenni Íslendingur lærir bara heima hjá sér.
Við víkjum aftur að tungumálinu sem flestir Íslendingar annaðhvort hatast við eða láta sér vel lynda frá grunnskóla og upp úr – að minnsta kosti var það þannig á barnaskólaárum blaðamanns fyrir fjörutíu árum. Jófríður játar að erfiðast hafi verið að skilja talaða dönsku, þar er nefnilega eitt að hlusta á upptöku í kennslustund með textann fyrir framan sig og annað að standa augliti til auglitis við borinn og barnfæddan Dana og skilja mæli hans með öllum kostum og kynjum – úfmælt sveifluhljóð kverkanna með hæfilegum skammti af stuðandi raddbandalokhljóðum sem reynst hafa mörgum Frónbúanum óþægur ljár í þúfu og vitjað sumra í martröðum.
„Mér fannst sem sagt erfiðast að læra að skilja dönskuna og fara að geta sagt eitthvað meira en felst bara í kurteislegu yfirborðsspjalli. Svo kom þetta allt saman á nokkrum mánuðum en ég var samt rosalega efins fyrstu önnina í skólanum um hvað ég væri að gera,“ viðurkennir Jófríður og lítur til baka til ársins 2021 með hlýju í röddinni sem hún fær illa dulið. Fyrstu mánuðirnir í nýju landi eru ævintýri – alla vega eftir á.
Íslendingurinn var verulega tvístígandi alla fyrstu önnina í ókunnugum skóla í hálfókunnugu landi, hvað sem líður þeirri gullvægu setningu skáldsins á Gljúfrasteini að „heilinn á Íslendíngum hefur alltaf verið í Kaupinhafn“.
„Þetta var mjög erfitt, ég hætti með kærustunni minni tveimur mánuðum áður en ég flutti út og við vorum búnar að tala um að fara út saman þannig að ég var bara ein og þetta var voðalega erfitt eitthvað. Ég reyndi bara að vera í góðu símasambandi við fjölskylduna á þessum tíma,“ rifjar Jófríður upp.
Tungumálaörðugleikar í byrjun og erfiðleikar við að eignast vini þegar hún talaði málið ekki af fullkomnu öryggi lögðust á eitt við að þyngja róðurinn og hugsanir um að leggja ár í bát létu reglulega kræla á sér. „Skólinn var ekkert mjög erfiður en að þurfa að fara í munnleg próf á dönsku þarna fyrst var ekkert rosalega gaman. Þau fyrstu gengu þó ágætlega, í janúar 2022, vegna þess að ég hafði undirbúið mig mjög vel og þá sá ég að ég gæti þetta alveg,“ segir Jófríður frá.
Augnablik sannleikans hafði þá runnið upp skömmu áður, þegar hún skrapp heim milli haustannar og vorannar, jólin 2021, og var hreinlega ekki viss um að hún ætlaði sér til kóngsins Kaupmannahafnar á ný.
„Ég hugsaði þá með mér að ekki væri fullreynt með þetta ef ég færi ekki aftur og ákvað þá að klára veturinn alla vega og sjá svo til. Svo kláraði ég allt námið,“ segir hún, en svo sem greint er frá í upphafi viðtals féll BA-gráðan henni í skaut í vor og nú stefnir Jófríður ótrauð á meistaranám í haust.
Jófríður fékk námsstyrk fyrir íslenska nemendur í Danmörku í fyrra og aftur í ár sem fleytti henni eitthvað áfram en fyrir utan það segir hún lykilinn að því að hafa komist gegnum heilt BA-nám fjárhaglega hafa verið mikla vinnu á Íslandi á sumrin og þegar hún brá sér heim á Frónið í jólafríum. Ofan á það hafi svo spartverskir lifnaðarhættir verið lykillinn að því að komast af – meinlætalíf námsmannsins.
„Ég sótti um meistaranám í febrúar og held áfram í félagsfræðinni, bara með aðeins meiri sérhæfingu, nú mun ég einbeita mér meira að velferð og jafnrétti, það verður mín lína,“ segir Jófríður sem aðspurð kveðst hafa öðlast allt að því trúarbragðakenndan áhuga á félagsfræði í Menntaskólanum á Egilsstöðum.
„Kennarinn minn þar var þannig að mér fannst bara allt magnað sem hann sagði, hefði þetta verið sértrúarsöfnuður hefði ég örugglega gengið í hann,“ segir hún og hlær. Mest heillandi við fræðin hafi henni þótt að öðlast þann eiginleika að geta horft á samfélagið og heiminn allan frá öðru sjónarhorni og að fenginni þeirri reynslu hafi hún haft fræðigreinina bak við eyrað, í bókstaflegum skilningi raunar, og sjái hún hvergi eftir því nú að hafa opnað sér þann heim.
Fram undan er tveggja ára meistaranám og hefur Jófríður að eigin sögn ekki látið sig dreyma sérstaklega um starfsvettvang, líti hún þó hýru auga til kennslu eða einhvers á vettvangi listarinnar sem tengja mætti félagsfræðinni – landamærin eru fá og fjarri í þeim þverfaglega heimi sem rutt hefur sér til rúms á 21. öldinni.
Hvernig finnst þér Danir taka Íslendingum sem flytja út til náms eða starfs?
„Mér finnst þeir taka okkur mjög vel á marga vegu, en hér eru auðvitað svo margir Íslendingar að við erum engin nýlunda fyrir Dani, hér er ekkert „vá, ertu Íslendingur?!““ segir Jófríður og blaðamaður getur ekki á sér setið að spyrja hana út í þá lífseigu áráttu Dana að sýna nýjum notendum tungumálsins enga þolinmæði heldur skipta strax yfir í ensku greini þeir smæsta vott af erlendum hreim hjá viðmælandanum – öfugt við nágrannana í Noregi sem halda sig við norsku þar til allar vonir eru brostnar og hægja heldur á máli sínu til að auðvelda nýjum norskunotendum samskiptin.
„Ég skil þig svo vel,“ segir Jófríður og hlær smitandi hlátri. Kveðst hún þó ekki hafa lagst í djúpar félagsfræðilegar rannsóknir á þessum danska sið þrátt fyrir að hafa imprað á honum við danskar vinkonur sínar. „Íslendingum finnst þetta mjög pirrandi af því að flestir þeirra sem tala dönsku hér vilja yfirleitt læra hana, en Danirnir skipta alltaf yfir í ensku. Ég veit ekki hvernig á þessu stendur og mér finnst þetta mjög skrýtið,“ viðurkennir Jófríður svo við stöndum enn á byrjunarreit hvað þessa dönsku ráðgátu áhrærir.
Auk haldgóðrar reynslu af dönsku samfélagi þekkir Jófríður vel til í Skotlandi eftir að hafa farið í skiptinám til Edinborgar eina önn í fyrra. Þar sé veruleiki Íslendinga allt annar þar sem Skotum þyki stórmerkilegt að rekast á þessa nær óþekktu tegund á götu, fæstir þeirra hafi nokkurn tímann hitt Íslending og forvitnin um nágrannanna handan Atlantsála því nokkur.
„Ég var í Edinborgarháskóla og það var ótrúlega gaman, ég kynntist fjölda fólks hvaðanæva að úr heiminum. Mér finnst Skotar mjög opnir og tilbúnir að kynnast manni, sérstaklega í Edinborg sem er mikil háskólaborg. Mér finnst ekki jafn áberandi alþjóðlegt samfélag í Edinborg, Danir halda sig miklu meira með öðrum Dönum,“ segir félagsfræðingurinn sem segist vel geta hugsað sér að búa áfram í Danmörku að námi loknu.
„Ég gæti vel ímyndað mér að búa lengur í Danmörku en ég held að á endanum myndi ég alltaf vilja búa á Íslandi. Munurinn á þessum þjóðfélögum er samt mjög mikill, til dæmis þetta lífsgæðakapphlaup á Íslandi, það er eitthvað sem maður finnur ekkert fyrir í Danmörku. Héðan er líka svo stutt að fara til annarra landa. En ég finn líka alltaf hvað það er yndislegt að koma heim, til dæmis um jólin í tvær vikur, þó að maður sé svo að fara út aftur,“ segir Jófríður Úlfarsdóttir að lokum, klár í slaginn við meistaranám í félagsfræði í Kaupmannahöfn er sumri tekur að halla.