Ráðuneytið fer með rangt mál í samráðsgátt

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mennta- og barnamálaráðuneytið fullyrðir í samráðsgátt stjórnvalda að ráðgert sé að nýtt námsmat, svokallaður matsferill, verði tilbúið til notkunar í byrjun árs 2025.

Á sama tíma segir forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu að hluti matsferilsins verði ekki tilbúinn til notkunar fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026-2027, eða einu og hálfu ári síðar. 

Stofnunin hefur umsjón með innleiðingu nýja námsmatsins.

Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is, um hvort það hafi verið meðvitað um þetta misræmi og hvort fyrirhugað sé að leiðrétta fullyrðinguna í samráðsgáttinni, er spurnarefninu drepið á dreif.

Samræmdum prófum fyrst frestað

Með lagabreytingu sumarið 2022 var mennta- og barnamálaráðherra veitt heimild til að fresta samræmdum prófum til og með 31. desember 2024.

Í samráðsgátt stjórnvalda má nú finna áform um lagabreytingu sem fela í sér að veita ráðherra heimild til að leggja fyrir kannanir eða próf til stöðumats á skólakerfinu í stað samræmdra könnunarprófa. 

Áformin voru birt 5. júlí.

Í samráðsgáttinni kemur fram að gert sé ráð fyrir að matstæki í stærðfræði og lesskilningi verði tilbúin til notkunar í byrjun næsta árs, eða svokallaður matsferill.

Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, að matsferillinn verði ekki innleiddur til fulls fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026-2027.

Með öðrum orðum, þá óskar ráðherra eftir heimild til að leggja niður samræmd könnunarpróf til frambúðar og beita nýju námsmati í stað þeirra, sem verður ekki tilbúið fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár – en í samráðsgátt segir að það verði tilbúið eftir hálft ár.

Spurningunum ekki svarað

mbl.is sendi fyrirspurn á ráðuneytið þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið hefði verið meðvitað um stöðuna á þróun matsferilsins, og ef svo væri hvers vegna þessu hefði verið haldið fram í samráðsgáttinni. Þá var einnig spurt hvort ráðuneytið hygðist leiðrétta textann.

Í svari ráðuneytisins fengust ekki bein svör við spurningunum. Aftur á móti kom fram að ráðuneytið legði áherslu á að ljúka innleiðingu matsferils eins hratt og kostur væri.

Hér fyrir neðan má lesa svar ráðuneytisins í heild sinni:

Í Samráðsgátt eru lögð fram áform til umsagnar. Áformin um lagabreytinguna eru ekki fullmótaðar eða endanlegar tillögur og geta þau tekið breytingum. Í umræddum áformum var gert ráð fyrir að matstæki í stærðfræði og lesskilningi verði tilbúin til notkunar í byrjun árs 2025. Mennta- og barnamálaráðuneytið leggur áherslu á að ljúka innleiðingu Matsferils eins hratt og kostur er og vinnur ný stofnun að því.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, hefur verið falið framkvæmd viðamikilla breytinga á menntakerfinu, breytingar sem saman er ætlað að styðja betur við skóla og kennara og bæta námsárangur barna. Meðal þeirra er frekari innleiðing Matsferils. Vinna við mismunandi hluta Matsferils er mislangt á veg komin og verður innleidd í skrefum. Innleiðing matstækis í lesskilingi er sem dæmi lengra á veg komin en í stærðfræði. Ráðuneytið og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu eru samstíga í að koma nýju námsmati í framkvæmd á eins og hraðan og skilvirkan hátt og hægt er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka