„Saklaus“ – Guðbjartur sýknaður í Kanada

Fagráð á eftir að meta hvort hann fái aftur heimild …
Fagráð á eftir að meta hvort hann fái aftur heimild til að nudda konur. Ljósmynd/Colourbox

Guðbjartur Haraldsson, sjúkranuddari í Burnaby í Kanada, hefur verði sýknaður af ákæru um kynferðisbrot. Var hann sakaður um að brjóta á sjúklingum sínum. Nú bíður hann eftir því að fagráð taki mál hans fyrir svo hann geti starfað án takmarkana.

Héraðsdómari sýknaði Guðbjart í mánuðinum og gekk skrefinu lengra með því að lýsa hann saklausan í dómsuppkvaðningu. Guðbjartur er sjúkranuddari í Burnaby í Bresku Kólumbíu í Kanada. 

Staðarmiðillinn BurnabyNow hefur eftir dómaranum að hann hann hafi áhyggjur af „áreiðanleika og trúverðugleika“ sakanna sem sjúklingur sem kærði Guðbjarts höfðaði gegn honum. Hún sakaði hann um að beita sig kynferðislegu ofbeldi í meðferðartíma árið 2022.

„Hann hefur misst af miklu undanfarin ár en það er örugglega gríðarlegur léttir fyrir hann að losna við þetta,“ sagði Kevin Westell, lögmaður Guðbjarts, í viðtali við kanadíska miðilinn CBCVísir greindi fyrstur íslenskra miðla frá sýknunni.

Konan var sjúklingur Guðbjarts

Emma Waterman, saksóknari í málinu, bauð dómaranum að sýkna Guðbjart og sagði að eftir að hafa skoðað málsgögnin gaumgæfilega „gæti hún ekki sagt í góðri trú að krúnan [saksóknari] hefði sannað mál sitt umfram öll vafaatriði“. 

Guðbjartur Haraldsson.
Guðbjartur Haraldsson. Ljósmynd/Lögreglan í Surrey

Guðbjarti var borin sök um að hafa snert kvenkyns sjúkling á óviðeigandi hátt er hún var hjá honum í nuddmeðferð. 

Lög­regl­an hóf rann­sókn á mál­inu 25. nóv­em­ber 2022 og var Guðbjart­ur, kallaður Bod­hi, hand­tek­inn og kærður fyr­ir kyn­ferðis­brot. Hon­um var síðar sleppt úr haldi, meðal ann­ars gegn því skil­yrði að hann mætti ekki starfa sem nudd­ari.

Hafi brugðist við í samræmi við leiðbeiningar

Dómarinn kvaðst trúa frásögn Guðbjarts um það sem „í raun“ gerðist í meðferðinni og þeim skrefum sem hann tók um leið og hann yfirgaf herbergið þann daginn.

Samkvæmt umfjöllun BurnabyNow sagði Guðbjartur fyrir dómi að konan hafi hegðað sér á kynferðislegan máta í tímanum. Hún hafi gripið um hönd hans og beðið hann um að taka þátt.

„Ég hugsaði „Andskotinn! Hvað geri ég hérna? Hvernig kemst ég út úr þessum aðstæðum? Hvernig get ég stöðvað þetta án þess að henni líði óþægilega?“ sagði Guðbjartur fyrir dómi.

Hann hafi brugðist við með því að hrista hönd hennar af sér og ljúka tímanum skömmu síðar, að sögn Guðbjarts. Hann hafi siðan sent konunni tölvupóst næsta dag þar sem hann sagðist hafa aflýst öllum fyrirhuguðum tímum hennar hjá sér.

Aðspurður sagðist hann ekki hafa hringt á lögregluna vegna þess að hann var ekki viss hvort hegðun hennar væri skilgreind sem kynferðisleg áreitni.

„Ég brást við í samræmi við leiðbeiningar fagráðsins,“ sagði hann.

„Saklaus“ mikilvægt orðalag

„Ég verð að segja að ég tel hann saklausan af þessum glæp,“ sagði dómarinn.

Westell, lögmaður Guðbjarts, segir orðalagið „saklaus“ vera afar mikilvægt.

„Þetta er ekki eitthvað sem maður sér oft. Ég held að það skipti skjólstæðing minn og fjölskyldu hans töluverðu máli að fá þessa réttlætingu,“ sagði verjandinn.

„Það er erfitt að lýsa því hversu þungt áhrif ákæra um glæp getur lagst á mann í hvaða aðstæðum sem er, hvort sem hann hefur gert það sem hann er sakaður um eða ekki.“

Bíður eftir mati fagráðs

Fagráð sérfræðinga í óhefðbundnum lækningum í Bresku Kólumbíu, sem sér m.a. um að skráningu löggiltra sjúkranuddara í héraðinu, segir að enn séu í gildi takmarkanir sem lögreglan setti Guðbjarti þegar hann var ákærður (fagráðið nefnist á ensku „College of Health and Care Professionals of BC“).

Guðbjartur má því enn ekki nudda konur og á biðstofu hans þarf enn vera plagg þar sem greint er frá því að hann hafi verið ákærður. En það gæti breyst þegar fagráðið hefur farið yfir dóminn og gert heildarmat á hæfi Guðbjarts. 

Málsmeðferðinni hafði verið frestað þar til lokið var við sakarefnið en búast má við því að málið verði nú aftur tekið fyrir fyrst dómur hefur verið uppkveðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert