Segir orðræðu Helga ala á sundrung og fordómum

Oddur segir Helga missa trúverðugleika sinn í starfi.
Oddur segir Helga missa trúverðugleika sinn í starfi. mbl.is/Kristinn Magnússon, Ljósmynd/Aðsend

Oddur Ástráðsson, lögmaður og einn eigenda lögfræðistofunnar Réttar, segir orðræðu Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara um innflytjendur ala á sundrung og fordómum.

Vararíkissaksóknari ræddi við mbl.is eftir að dómur féll í máli Mohamad Kourani en Kourani hafði staðið í hótunum við Helga í nokkur ár. Kourani hlaut átta ára fangelsisdóm fyrir tilraun til manndráps og stórfellda líkamsárás, auk annarra brota. 

Helgi sagði Ísland vera að breytast og að ýmis dæmi væru um að hingað til lands komi menn sem hafi önnur viðhorf til náungans, laga, reglna og mannréttinda. 

Yfirfæri brot eins manns yfir á heilan hóp

Í færslu á Facebook vegna orða Helga vitnar Oddur í tilmæli Evrópuráðsins þar sem hatursorðræða er skilgreind sem: „öll tjáning sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir kynþáttahatur, útlendingahatur, gyðingahatur eða annars konar hatur sem byggist á umburðarleysi [...] mismunun og fjandskap gegn minnihlutahópum, farandverkafólki og fólki af erlendum uppruna.“ 

Oddur ræddi við blaðamann mbl.is um færsluna og orð Helga. 

Spurður hvort hann telji orð Helga flokkast sem hatursorðræðu segir Oddur ummælin ala á sundrung. 

„Mér finnst alveg augljóst af samhenginu, að hann er að heimfæra brot eins manns yfir á hóp sem hefur ekkert með málið að gera, og með því er hann að ala á sundrung og fordómum. 

Hafi áhrif á trúverðugleika hans

Oddur segir það alvarlegt að maður, í jafn mikilvægri stöðu og Helgi, tjái sig með þessum hætti og að það veki upp spurningar um trúverðugleika hans í starfi.

„Það að maður sem gegnir eins mikilvægri stöðu og hann innan réttarvörslukerfisins tjái sig með slíkum hætti þykir mér bara mjög alvarlegt og þá má alveg spyrja sig að því hvort menn í svipaðri stöðu á Norðurlöndunum yrði stætt í slíkri stöðu ef þeir myndu tjá sig með þessum hætti.“

Þá segir hann „augljóst að hans orðræða hafi áhrif á trúverðugleika hans.“

Getum ekki dregið fólk í dilka eftir litarhafti

Oddur hefur áhyggjur af því að maður í eins hárri stöðu og Helgi tjái sig með þessum hætti og það sé möguleg birtingamynd þess að hatursorðræða sé orðin samþykktari. 

„Það er bara þannig að við getum ekki verið með embættismenn sem dregur fólk í dilka eftir því hvernig það er á litinn,“ segir Oddur. 

Í færslu Odds á Facebook nefnir hann einnig ummæli Ásgerðar Jónu Flosadóttur, formanns Fjölskylduhjálpar Íslands, á Bylgjunni í morgun. Þar sem hún greindi frá því að sér dagar verði í matarúthlutun fyrir Íslendinga og útlendinga vegna hótana sem menn frá Palestínu hafi haft við sjálfboðaliða Fjölskylduhjálpar. 

Oddur segir þetta til þess fallið að ýta enn frekar undir hatursorðræðu og sundrungar.

„Hvernig sú kona tjáði sig í viðtali á Bylgjunni í morgun dæmir sig algjörlega sjálft. Og er til þess fallið að við færumst fjær því að vera siðað samfélag.“


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert