Jón Hörður Jónsson, flugstjóri og formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), segir áformaða styttingu flugbrautarinnar á Selfossflugvelli munu skerða öryggi og notkunarmöguleika vallarins.
Fjallað var um málið í Morgunblaðinu í gær. Þar sagði að skipulagsyfirvöld í Árborg hefðu auglýst breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins Árborgar 2020-2036 sem felur í sér að austurvestur-flugbrautin á Selfossflugvelli er stytt svo hún sé aðeins á landi í eigu Árborgar en ekki á landi í einkaeigu. Eftir breytingu verði vesturbrautin um 850 metrar að lengd.
„Það er verið að þrengja að flugvöllum víðar en í Reykjavík. Á Selfossi er verið að þrengja að flugvellinum bæði að sunnanverðu með iðnaðarhverfi og að norðanverðu meðfram bökkum Ölfusár.
Það er ljóst að stytting á þessum flugbrautum skerðir notkunarmöguleika flugvallarins og hefur þar af leiðandi áhrif á flugöryggi,“ segir Jón Hörður.
Meira má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.