Stórhuga áform: „Þetta er bara upphafið“

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður bæjarráðs, ræddi við mbl.is í kjölfar …
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður bæjarráðs, ræddi við mbl.is í kjölfar þess að samningurinn var undirritaður. mbl.is/Anton Brink

Uppbygging íbúða er fyrirhuguð á Ásbrú í Reykjanesbæ í fyrsta sinn síðan að varnarliðið fór árið 2006. Næstu árin verður áframhaldandi uppbygging á svæðinu.

Þetta segir Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður bæjarráðs, í samtali við mbl.is.

„Þetta er bara mjög ánægjulegt að sjá þetta hverfi byrja að stækka. Það eru áform hér um mikla uppbyggingu, allt að 14 þúsund manna íbúðabyggð, þannig þetta er bara upphafið að því,“ segir Halldóra, en í dag búa um fimm þúsund manns á Ásbrú.

Helsta uppbyggingarsvæði bæjarins

Í gær skrifuðu Kadeco [Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar], Reykjanesbær og byggingafélagið Stofnhús undir samning um þróun og uppbyggingu íbúðabyggðar á svonefndum Suðurbrautarreit á Ásbrú.

Í samningnum er kveðið á um að byggðar verði að lágmarki 150 íbúðir á reitnum.

Verið er að taka stórt skref í skipulagsmálum í Reykjanesbæ, en samkvæmt aðalskipulagi er Ásbrú helsta uppbyggingarsvæði bæjarins á komandi árum.

Búið er að skrifa undir samning um uppbyggingu að lágmarki …
Búið er að skrifa undir samning um uppbyggingu að lágmarki 150 íbúða. mbl.is/Anton Brink

Eru að leggja af stað í langferð

Í nýju rammaskipulagi Ásbrúar, sem nú er í auglýsingu, er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi upp í allt að 14 þúsund til ársins 2050. Halldóra segir að til lengri tíma litið geti sú tala hækkað enn frekar.

Spurð af hvort að það séu einhverjar sérstakar ástæður fyrir því að ekki hafi verið farið í uppbyggingu á svæðinu fyrr segir hún:

„Nei, það hefur bara tekið tíma að huga að framtíðarskipulagi í hverfinu. Þannig við höfum unnið mjög náið með Kadeco í þeim efnum, okkar umhverfis- og framkvæmdasvið, og erum bara að leggja af stað í langferð.“

Fyrirhuguð uppbygging á Ásbrú.
Fyrirhuguð uppbygging á Ásbrú. Tölvuteiknuð mynd/Kadeco

Sjá fyrir mikla uppbyggingu

Halldóra segir að hverfið verði allt öðruvísi samhliða uppbyggingunni og bendir á að hópur sé kominn af stað við að undirbúa uppbyggingu nýs grunnskóla á Ásbrú.

„Þannig við sjáum fyrir okkur að það verði mikil uppbygging í þessu hverfi á næstu árum,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert