Tæknilegir örðugleikar sem skekja nú heimsbyggðina virðast ekki hafa nein áhrif á flugfélag Play. Örðugleikarnir eru sagðir tengjast kerfisbilun hjá Microsoft.
Í samtali við mbl.is segir Nadine Guðrún Yaghi upplýsingafulltrúi Play að kerfi flugfélagsins séu hýst hjá AWS, eða Amazon Web Services, og því séu engar þjónustur hýstar hjá Microsoft.
Aðspurð segir hún allt flug félagsins hafa verið á áætlun í morgun. Flugfélagið sé þó vakandi og fylgist vel með stöðu mála í dag.
„Enn sem komið er höfum við ekki heyrt af neinni seinkun,“ segir Nadine.