Andlát: Agnar Guðnason

Agnar Guðnason er látinn.
Agnar Guðnason er látinn. mbl.is

Agnar Guðnason, lengi ráðunautur Búnaðarfélags Íslands og stofnandi Bændaferða, lést á hjúkrunarheimilinu Eir 10. júlí síðastliðinn, 97 ára að aldri.

Agnar fæddist 13. febrúar 1927. Foreldrar hans voru Guðni Eyjólfsson, verkstjóri við Gasstöðina í Reykjavík (1883-1974), og Sigrún Sigurðardóttir húsmóðir (1895-1953). Agnar var yngstur átta barna foreldra sinna en fyrir átti faðir hans son.

Agnar var búfræðingur frá Hólum í Hjaltadal 1945, lauk prófi frá Búnaðarskólaum Tune í Danmörku 1947 og var búfræðikandídat frá Búnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1950. Hann starfaði eftir nám við rannsóknir í landbúnaði í Noregi og á Íslandi. Var kennari við Héraðsskólann á Reykjum í Hrútafirði 1952-1953 og ráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands 1954-1975. Þá var Agnar blaðafulltrúi Bændasamtakanna 1975-1985, yfirmatsmaður garðávaxta frá 1985, í ritaranefnd Norrænu bændasamtakanna (NBC) frá 1964 og ritari Íslandsdeildar NBC. Hann var framkvæmdastjóri ýmissa sýninga og viðburða.

Agnar var ritstjóri Handbókar bænda 1960-1974 og meðritstjóri búnaðarblaðsins Freys í 2 ár. Þá skrifaði hann bæklinga og fjölda blaðagreina. Agnar var landsþekktur útvarpsmaður til fjölda ára þar sem hann annaðist fræðslu- og skemmtiþætti í útvarpinu, Jónsmessuþættina og Spjallað við bændur. Agnar stofnaði ferðaskrifstofuna Bændaferðir árið 1965 og ferðaðist með þúsundir Íslendinga til margra landa í yfir 40 ár.

Eiginkona Agnars var Fjóla H. Guðjónsdóttir, f. 7. september 1926, d. 12. janúar 2021. Þau voru gefin saman árið 1953. Kona Agnars 1949-1952 var Ada Christensen. Synir Agnars og Fjólu eru Guðjón Sverrir, f. 1954, Guðni Rúnar, f. 1956 og Hilmar Örn, f. 1960. Börn þeirra bræðra, barnabörn Agnars og Fjólu, eru alls átján. Barnabarnabörnin eru þrettán talsins.

Stjúpdóttir Agnars, dóttir Fjólu: Anna Lillian Björgvinsdóttir, f. 1948.

Dóttir Agnars frá fyrra hjónabandi, alin upp í Danmörku: Ulla Gudnason, f. 1950.

Útför Agnars verður gerð frá Áskirkju í Reykjavík 23. júlí næstkomandi kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert