Húsnæði að Bankastræti 5, sem lengi hefur hýst vinsæla skemmtistaði borgarinnar, er laust til leigu.
Í glugga húsnæðisins segir að um sé að ræða tækifæri í rekstri en síðustu þrír rekstraraðilar hússins hafa verið þar með skemmtistað.
Nú síðast var þar til húsa skemmtistaðurinn b5 en honum var lokað af lögreglu 26. apríl að beiðni skattayfirvalda.
Í kjölfarið sendi Sverrir Einar Eiríksson, veitingamaður og eigandi skemmtistaðarins, frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist ekki af baki dottinn og að staðurinn yrði opnaður á ný. Aldrei fór þó svo og eins og fyrr segir er húsnæðið laust til leigu.
Birgitta Líf Björnsdóttir, markaðsstjóri World Class, er meðal þeirra sem hefur rekið skemmtistað í húsnæðinu. Var það áður en Sverrir Einar tók við og gekk staðurinn undir nafninu Bankastræti Club.
Sverrir Einar tók við rekstrinum í júní á síðasta ári og var markmiðið þá að endurvekja stemninguna sem var áður í húsinu þegar þar var rekinn skemmtistaðurinn b5.
Margir kannast við nafnið b5 enda var staðurinn til húsa við Bankastræti 5 í mörg ár áður en staður Birgittu Lífar tók við. Reksturinn gekk þó erfiðlega þegar strangar samkomutakmarkanir voru í gildi í heimsfaraldri Covid-19 og var skemmtistaðnum á endanum lokað.
Sverrir varð þó að breyta nafninu á staðnum í B í kjölfar þess að lögbann var lagt á notkun heitisins b5 þar sem heitið reyndist í eigu einkahlutafélags.