Börnum mismunað eftir búsetu á Íslandi

Verzlunarskóli Íslands. Ósamræmi hefur komið í ljós í niðurstöðum könnunarprófa …
Verzlunarskóli Íslands. Ósamræmi hefur komið í ljós í niðurstöðum könnunarprófa sem lögð eru fyrir nýnema. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jafnræðis er ekki gætt í íslenskum grunnskólum þegar kemur að einkunnagjöf. Þetta sést meðal annars á könnunarprófi sem lagt er fyrir nýnema Verzlunarskóla Íslands í upphafi skólaárs.

Frá þessu greinir Viðskiptaráð Íslands, sem er bakhjarl skólans, í nýrri umsögn í samráðsgátt stjórnvalda.

Standa nemendur úr ákveðnum grunnskólum sig betur á könnunarprófinu í samanburði við nemendur úr öðrum grunnskólum, þó svo að einkunnir nemendanna við útskrift úr grunnskóla séu þær sömu.

Þannig fari það eftir búsetu barna, eða hverfisskóla þeirra, hvort þau eigi meiri möguleika á að komast inn í eftirsótta framhaldsskóla eður ei.

Umsögn ráðsins er lögð við áform mennta- og barnamálaráðuneytisins, um að ráðherra verði heimilt að leggja alfarið niður samræmd próf.

Prófin hafa ekki verið haldin síðustu ár og ekkert hefur komið í stað þeirra, þrátt fyrir yfirlýst áform þess efnis þegar þau voru lögð af.

Einkunnaverðbólga er mismikil eftir grunnskólum.
Einkunnaverðbólga er mismikil eftir grunnskólum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Menntun eitt stærsta efnahagsmál landsins

Viðskiptaráð tók við rekstri Verzlunarskólans árið 1922 og hefur verið bakhjarl hans síðan þá. Skipar ráðið jafnframt fulltrúa í skólanefnd og fulltrúaráð.

„Að mati ráðsins er menntun eitt stærsta efnahagsmál Íslands, enda drifkraftur mannauðs, grunnstoð samfélagsinnviða og lykilþáttur í samkeppnishæfni,“ segir í umsögninni.

Undanfarin ár hefur Verzlunarskólinn lagt könnunarpróf fyrir nýnema. Er það gert til þess að kanna raunfærni nemendanna.

Í umsögn Viðskiptaráðs segir einnig að löngu sé orðið ljóst að af­nám sam­ræmdra prófa hafi verið mis­tök, eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag.

Sumum neitað um tækifæri

Þegar niðurstöður úr könnunarprófinu eru bornar saman við einkunnir nemendanna úr grunnskóla hefur ósamræmi komið í ljós.

„Með notkun ósamanburðarhæfra einkunna við val á milli umsækjenda um framhaldsskólavist er börnum mismunað eftir búsetu. Þannig getur umfang einkunnaverðbólgu í hverfisskóla barns ráðið tækifærum þess til framhaldsnáms,“ segir í umsögninni.

„Hið sama á við um tækifæri til að bæta eigin færni – án samræmdra mælikvarða er sumum börnum neitað um tækifæri til að bæta færni sína en ekki öðrum.“

Telur ráðið afnám samræmdra prófa hafa leitt til brots á jafnræði meðal grunnskólabarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka