Brutu hegningar­lög og al­þjóða­siglinga­reglur

Báðir neituðu sök og sökuðu hvor annan um gáleysi.
Báðir neituðu sök og sökuðu hvor annan um gáleysi. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm yfir tveimur karlmönnum í síðasta mánuði fyrir að brjóta gegn hegningarlögum og alþjóðasiglingareglum. Þeir hlutu tveggja ára skilorðsbundinn dóm. Þá er þeim gert að greiða allan sakarkostnað.

Mennirnir tveir höfðu mánudagskvöldið 17. ágúst árið 2020 siglt óskráðum harðbotna slöngubát og óskráðri sæþotu, með ógætilegum hætti á ytri höfn Reykjavíkur sem leiddi til þess að slöngubáturinn og sæþotan rákust saman.  

Einn farþegi sem var um borð í sæþotunni kastaðist frá borði við áreksturinn og hlaut opið beinbrot á lærlegg og skurð á fótlegg. 

Var að sigla og leika sér

Annar ákærðu sagði í skýrslutöku fyrir dómi að fyrir óhappið hefði hann, ásamt öðrum, verið að sigla og leika sér á sæþotu. Sagði hann að brotaþoli, sem var þá um borð í slöngubátnum, hefði viljað fara hring með honum, sem hann samþykkti. 

Þegar brotaþoli fór um borð í sæþotuna kvaðst ákærði hafa farið yfir helstu öryggisatriði með henni. Brotaþoli var hins vegar ekki í sjóbúningi heldur björgunarvesti, en ákærði hefði ekki tekið eftir því í fyrstu. Ákærði hefði því sagt að það væri betra að hún færi aftur í slöngubátinn til að blotna ekki. Hann sigldi þá af stað að slöngubátnum og tók krappa beygju. 

Ákærði sigldi að Engey, sem hann sagðist þurfa að gera til að ná þeirri beygju sem hann þurfti. Þá hefði meðákærði verið að koma úr krappri beygju og ákærði nálgaðist hann. Hann kvaðst hafa ætlað sjá hvort þeir gæfu ekki færi á að nálgast, en svo virtist ekki vera. Þá hefði hann ekki gert sér grein fyrir hvað meðákærði væri að gera sem hann lýsti sem fíflaskap. 

Ákærði virtist átta sig á því að það yrði árekstur sem hann kvaðst ekki hafa getað afstýrt. Hann sagði að ef meðákærði hefði haldið sinni stefnu óbreyttri hefði enginn árekstur orðið. 

Spurður virtist ákærði ekki þekkja alþjóðlegar siglingareglur. 

Benda hvor á annan 

Ákærðu eru ekki á sama máli um hvor þeirra beri sök. Þeir neita báðir sök og benda hvor á annan. Þá saka þeir hvor annan um gáleysi við siglingar og aðgæsluleysi gagnvart hvor öðrum. 

Meðákærði sagði fyrir dómi að hann hefði verið í skemmtisiglingu með vinahjónum sínum.  Hann kvaðst ekki hafa séð þegar brotaþoli fór um borð í sæþotuna en sagðist hafa séð á eftir þeim, en fljótlega hefðu þau horfið.

Hann sigldi þá einn hring en kvaðst hvergi hafa séð ákærða. 

Skömmu síðar hafi hann heyrt kallað „hann er að stefna á okkur“ og „ertu að reyna að keyra í veg fyrir okkur?“ Ákærði hefði þá beygt undan og misst sjónar á meðákærða.

Skömmu síðar hefði hann heyrt sæþotuna nálgast á vinstri hönd, hann hefði þá haldið áfram sinni leið og verið kominn í sömu stöðu og áður. Stuttu síðar hefði meðákærði komið á móti honum og farið í veg fyrir hann. 

Ákærði sagðist ekki hafa búist við honum á þessum stað og að hann hefði í framhaldinu reynt að koma sér frá honum, sem hann kvaðst ekki geta gert þar sem annar bátur hefði verið á hans hægri hönd. 

Hefði verið hægt að afstýra árekstrinum

Að mati dómsins var sannað að mennirnir tveir hefðu ekki gætt að ferðum hvor annars. En tveimur sekúndum fyrir áreksturinn voru ákærðu á töluverðri ferð. 

Þá er talið að hægt hefði verið að afstýra árekstrinum hefðu báðir aðilar fylgt siglingareglum sem á hafinu gilda.

Dóminn í heild sinni má sjá með því að smella hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert