„Dapurlegt“ hve lítið heyrist í menntamálaráðherra

Þorbjörg segir fráleitt að skólarnir fái ekki að nýta sér …
Þorbjörg segir fráleitt að skólarnir fái ekki að nýta sér niðurstöður kannana. mbl.is/Golli

Aðgerðaleysi stjórnvalda gagnvart menntavanda grunnskólabarna virðist ekki ríma við önnur áherslumál stjórnvalda í samfélaginu.

Þingmaður Viðreisnar kallar eftir skýrri stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda í málaflokknum.

„Grunnurinn þarf að vera sterkur, ef við erum að tala um að skapa hér störf sem byggja á menntun – skapa hálaunastörf, þá er þetta fyrsti punkturinn. Að búa vel að grunnskólunum. Allt annað sem á eftir kemur er eftirleikur þess,“ segir þingmaðurinn Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

Sex ár án samræmdrar mælingar

mbl.is hefur að undanförnu fjallað um stöðu grunnskólabarna og nýtt námsmat sem leysa á samræmdu könnunarprófin af hólmi.

Greint hefur verið frá því að nýtt námsmat verði ekki innleitt að fullu fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026 til 2027. Þrátt fyrir það er ekki til skoðunar að taka samræmd könnunarpróf tímabundið upp að nýju.

Því er ljóst að minnst sex ár muni líða án þess að hæfni grunnskólanemenda verði prófuð með samræmdri mælingu á landsvísu.

Greint var frá því á mbl.is í gær að Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefði óskað eft­ir heim­ild til að leggja niður sam­ræmd ­próf til fram­búðar og beita nýju náms­mati í stað þeirra.

Námsmat sem verður ekki til­búið fyrr en í fyrsta lagi eft­ir tvö ár – en ráðuneytið fullyrðir þó að ráðgert sé að það verði til­búið eft­ir hálft ár.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verið að svipta börn tækifærum

Þorbjörg veltir fyrir sér hvaða framtíðarstaða sé að teiknast upp. Niðurstöður PISA-könnunarinnar hafi um margra ára skeið sýnt slak­an ár­ang­ur ís­lenskra nemenda og á sama tíma ríki aðgerðaleysi hjá stjórnvöldum. 

„Á vettvangi stjórnmálanna ætti ekkert stærra verkefni að horfa við okkur en þessi staða. Maður veltir fyrir sér, þegar tölurnar eru þessar, hver staða allt of margra barna er við útskrift,“ segir Þorbjörg og bætir við: 

„Mér hefur fundist mjög sérstakt og dapurlegt hvað við heyrum lítið í ráðherra menntamála. Hvað hann er lítið leiðandi í þessu samtali öllu. Nú er það þannig að PISA-niðurstöðurnar eru eins og þær eru, og hafa verið um margra ára skeið, og það eru engar vísbendingar um að staðan sé að batna heldur þvert á móti.“

Hún segir um að ræða mjög alvarlega stöðu þegar kemur að lífsgæðum þessara barna.

„Það er verið að svipta börn tækifærum þegar þetta er staðan.“

Mikilvægt að grípa til aðgerða strax

Menntamálastofnun var lögð niður fyrr á þessu ári og við henni á að taka svonefnd Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, sem sett var á stofn í apríl. Forstjóri stofnunarinnar hefur fullyrt að sú breyting sé hluti af svari stjórnvalda við sífellt verri niðurstöðum íslenskra nemenda í PISA-könnuninni.

„Það er alveg jákvætt og gott að heyra af nýrri stofnun, og að það sé verið að vinna að einhverju mati, en ef það er sex ára eyða þar sem ekkert samræmt mat er, þá er það bara drjúgur hluti af æsku einhverra barna,“ segir Þorbjörg og undirstrikar mikilvægi þess að gripið verði til aðgerða strax. 

Á sama tíma segir hún vont að umræða um menntamál sé föst í þeim jarðvegi að reiðir foreldrar skelli skuldinni á skólana á meðan skólarnir skelli skuldinni á samfélagsgerðina og foreldrana. 

„Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra og það er algjörlega óboðlegt að staðan fái að malla svona áfram án þess að gripið sé inn í.“

Stuðningstæki fyrir kennara 

mbl.is hefur greint frá því að fyrirhugað sé að óheimilt verði að birta niður­stöður ein­stakra skóla eða sveit­ar­fé­laga úr hinum nýja mats­ferl­i, svo ekki verði hægt að gera sam­an­b­urð þar á milli.

Munu skól­ar aðeins fá upp­lýs­ing­ar um hvernig þeir standi gagn­vart landsmeðaltal­inu.

„Það er algjörlega fráleitt að viðhalda einhverju þannig kerfi, að skólarnir viti ekki hver staðan er,“ segir Þorbjörg sem kveðst sjálf þeirrar skoðunar að samræmdar mælingar og samræmd próf, eins og þau sem hafa fylgt íslensku skólakerfi um áratuga skeið, hafi verið af hinu góða. 

„Þetta er stuðningstæki fyrir börnin. Tæki til að hjálpa okkur að grípa inn í þegar þess er þörf og stuðningstæki líka fyrir kennara.“

Þorbjörg segir það útfærsluatriði hvernig eigi að birta niðurstöðurnar.
Þorbjörg segir það útfærsluatriði hvernig eigi að birta niðurstöðurnar.

„Skólarnir sjálfir þurfa að fá gögnin“

Hún segir umræðu um það, hvernig eigi að birta niðurstöðurnar, síðan annað mál og kveðst vel skilja rökin fyrir því að ekki skuli birta niðurstöðurnar opinberlega þannig að hægt sé að bera saman einstaka skóla. 

„En skólarnir sjálfir þurfa að fá gögnin, þurfa að hafa niðurstöðurnar. Það er engin stefnumótun eða pólitísk ákvörðunartaka betri með því að vera í blindflugi og hafa ekki gögn. Það er bara algjör vitleysa að reyna að leggja það á borð,“ segir Þorbjörg og bætir við: 

„Það er í engu samhengi lífsins sem það er betra að vita ekki stöðu mála. Þetta er einhver hugsanaskekkja hjá ráðherra menntamála, af því að auðvitað hjálpa gögnin okkur við að varða okkur leið áfram.“

Stjórnvöld þurfi að þora að stíga inn í

Þorbjörg segir mikilvægt að stjórnvöld þori að grípa inn í. Hún nefnir slakar niðurstöður PISA-könnunarinnar sem dæmi og útskýrir að svar stjórnvalda við þeim sé alltaf það sama. „Þetta sé nú líka að gerast annars staðar.“ 

Fallið sé engu að síður mest á Íslandi.

„Stjórnvöld þurfa að þora að stíga inn í og varða einhverja leið en ekki bara benda á embættismennina eða skólana.“ 

Þá segir hún skólana jafnframt kalla eftir skýrari sýn og stefnu. Að þeir fái tækin og starfsumhverfið til að skila sínu starfi, enda efist enginn um ágæti kennara í íslenskum grunnskólum. 

„Hvar hafa blaðamannafundirnir verið um stöðu barna, starfsanda kennara, umhverfi skólanna? Hér er komið efni þar sem er allt í einu einhver tregða við að halda blaðamannafundi. Hérna myndi maður vilja sjá fastan takt, skýra pólitíska stefnumótun og viðbrögð,“ segir Þorbjörg og útskýrir að ef eitthvað hafi einkennt núverandi ríkisstjórn þá séu það blaðamannafundir.

Öðruvísi horfi við í þessum efnum. 

„Þetta er bara ógn við lýðræðið“

Stór hluti vandamálsins er að mati Þorbjargar stærðir bekkja, flóknari samfélagsgerð og alls konar aukin verkefni kennara, en jafnframt að samræmdu stuðnings- og mælitækin vanti. 

„Það er auðvitað ekki í lagi að það sé að gerast með reglubundnum hætti í þessum PISA-mælingum að í ljós kemur að 40% hópsins getur ekki lesið sér til gagns eins og það er orðað. Þetta er bara ógn við lýðræðið.“

Á meðan þetta er staðan kemur upp kynslóð sem á erfitt með að túlka og meta upplýsingar, segir Þorbjörg sem spyr sig hvaða áhrif þetta muni hafa í framtíðinni. 

„Það þarf að tala um þetta í stórum orðum því þetta er mjög alvarleg staða.“

Ætti að vera stærsta áhyggjuefni háskólamálaráðherra

„Erum við mögulega að detta inn á þann stað að það verður ekki þörf á ráðuneyti háskólamála lengur vegna þess sem er að gerast í forstiginu?“ spyr Þorbjörg og leggur áherslu á mikilvægi þess að grunnurinn sé sterkur. 

„Ég myndi segja að þetta ætti að vera stærsta áhyggjuefni ráðherra háskólamála. Hvernig staðan er í grunnskólunum. Þegar við erum að tala líka um hvernig við viljum sjá atvinnumálin þróast og hvernig við viljum laða það fólk heim sem hefur farið út í framhaldsnám,“ segir hún að lokum.

„Þetta er hringrásarkerfi og öll þessi svið þurfa að tala saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert