Fylgjast þarf náið með kerfisbilun hjá Microsoft

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þar sem þessi fyrirtæki eru í mjög sterkri stöðu víða um heim á markaði, þá er ljóst að það er líklegt að þetta muni hafa einhver áhrif hérlendis,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samtali við mbl.is, um kerfisbilun hjá Microsoft sem virðist hafa áhrif víðs vegar um heiminn.

Búnaðurinn víða notaður í íslensku samfélagi

Hún segir ljóst að ekki sé um netárás eða sambærileg atvik að ræða, heldur kerfisbilun og að haft hafi verið samband við Fjarskiptastofu og CERT-IS vegna hennar.

„Það er ljóst að búnaður frá Microsoft er notaður mjög víða í íslensku samfélagi og kerfinu okkar og við þurfum auðvitað að fylgjast mjög náið með næstu klukkutímana og bregðast við ef þörf krefur,“ segir Áslaug. 

Tilkynningar að birtast

„Það hafa ekki komið margar tilkynningar enn sem komið er, en þær eru þó einhverjar að birtast núna og ég hef óskað eftir að fá að fylgjast náið með stöðunni ef það sé þörf á einhverjum viðbrögðum vegna þeirra tilvika sem gætu komið upp og valdið óþægindum, hvort sem það er fyrir fólk, fyrirtæki eða stofnanir,“ segir Áslaug að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka