Helgarveðrið: Sést jafnvel til sólar

Skýjahuluspá Veðurstofu Íslands á morgun klukkan 16.
Skýjahuluspá Veðurstofu Íslands á morgun klukkan 16. Kort/Veðurstofa Íslands

Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, útilokar ekki að það sjáist til sólar á morgun.

Þá helst sunnan og austan til á landinu.

„Helgin verður svöl fyrir norðan með þónokkurri rigningu á sunnudag. Best að vera á Suðurlandi um helgina, en síðan snýst þetta líklega við í byrjun næstu viku,“ segir Birgir. 

Hellidembur í flestum landshlutum í dag

Í dag verður tiltölulega hægur vindur og svo skúrir víða um land.

„Lengst af verður bara fínasta veður en það geta komið, sérstaklega seinni partinn, hellidembur, eiginlega í flestum landshlutum,“ segir Birgir.

Á morgun er spáð betra veðri, með smá lægð fyrir norðan.

Á Norður- og Austurlandi verður svalt og einhver smá rigning, en sunnan og austan til á landinu verður sæmilega milt, þó áfram verði líkur á síðdegisskúrum. Það gæti jafnvel sést til sólar.

„Á suður- og austurhluta landsins verður veðrið yfirleitt ágætt á morgun,“ segir Birgir. „En svalara og einhver rigning fyrir norðan.“

Besta veðrið á Suðurlandi

Ef fólk ætlar að elta veðrið, þá er hlýjast á Suðurlandsundirlendinu og á svæðinu í kringum Kirkjubæjarklaustur.

„Það er voðalega fínt á öllu sunnanverðu landinu á morgun, þó það gætu komið einhverjar síðdegisskúrir,“ bætir Birgir við.

Á sunnudaginn verður norðanátt með svalara veðri á Norður- og Austurlandi. Þegar líður á daginn mun hellirigna á þessum svæðum með svolitlum vindi, sem gerir ferðaveður þar leiðinlegt.

„Veðrið verður töluvert skárra sunnanlands á sunnudaginn,“ segir Birgir.

Horfur fyrir næstu viku

Næsta vika byrjar með lægð og úrkomu á Suður- og Vesturlandi, en þurrara og jafnvel bjart á Norðaustur- og Austurlandi.

„Þetta verða svona snúningar á næstunni,“ útskýrir Birgir. Fyrri hluta vikunnar verður úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi, en þurrara norðaustanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert