„Í raun og veru alveg óskiljanlegt“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir afstöðu Viktors Orbans forsætisráðherra Ungverjalands til Úkraínu óskiljanlega.

Bjarni sótti leiðtogafund hins pólitíska bandalags Evrópuríkja í Bretlandi í gær. Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti var meðal viðstaddra og barst því tal að stöðunni í Úkraínu á fundinum. 

„Menn voru sammála um að stríðið í Úkraínu er stríð um ákveðin gildi sem að menn vilja standa vörð um. Það er því mikið undir að halda áfram öflugum stuðningi við Úkraínu í þeirra vörn, fyrir ekki bara eigið landsvæði heldur fyrir vörn um lýðræðisleg gildi, landamæri og virðingu fyrir alþjóðalögum,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Spurður hvort einhugur hafi verið um þetta á fundinum segir Bjarni aðrar raddir ekki hafa heyrst. 

„Það er hægt að segja að það hafi ekki heyrst aðrar raddir, en við vitum svo sem að Ungverjaland hefur verið með sér sjónarmið hér innan Evrópu hvað varðar innrásarstríð Rússa. Og hafa verið dálítið sér á báti og einangraðir í umræðu innan Evrópusambandsins og á vettvangi NATO,“ segir Bjarni.

Orban er forsætisráðherra Ungverja.
Orban er forsætisráðherra Ungverja. AFP/Ludovic Marin

„Algjörlega umboðslaus“

Í byrjun mánaðar hitti Orban Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta í Moskvu. Leiðtog­ar inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins hafa gagn­rýnt ferðina harka­lega. 

Spurður um afstöðu sína til heimsóknarinnar segir Bjarni:

„Ég get alveg tekið undir það að hann er í raun og veru algjörlega umboðslaus, að vera að leita einn síns liðs einhverra lausna á deilunni. Það er miklu líklegra til árangurs að eiga samstarf með nánustu samstarfsþjóðum, vinum og bandamönnum.

Ef það er eitthvað sem skiptir máli þá held ég að það sé nú samstaða um samheldni til þess að mönnum sé það ljóst að ekki sé hægt að kljúfa raðir bandalagsmanna, hvort sem er í NATO eða innan Evrópu, í varðstöðu um þau gildi sem eru undir hér.“

Orban og Pútín funduðu í Moskvu, höfuðborg Rússlands.
Orban og Pútín funduðu í Moskvu, höfuðborg Rússlands. AFP/Viven Cher Benko/Forsætisráðuneyti Ungverjalands

Er Orban að valda aukinni spennu, til dæmis innan NATO. Finnur þú fyrir því að andrúmsloftið sé breytt?

„Það sem ég finn fyrst og fremst fyrir er að Úkraínumenn eru skýrir með það að án þess að þeir fái öflugan stuðning frá Evrópu að þá er nokkuð ljóst að mannfallið í Úkraínu mun stóraukast, árásir Rússa á borgaraleg skotmörk verða árangursríkari og það eru mun minni líkur á að vörn Úkraínu til lengri tíma geti haldið. Ég held að óhætt sé að fullyrða að það sé útilokað að hún geti haldið ef ekki verður fyrir stuðning frá Evrópu,“ segir Bjarni.

„Þannig að sjónarmið Orbans um að ekki eigi að veita Úkraínumönnum stuðning, af því tagi sem að er verið að gera, er í raun og veru alveg óskiljanlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert