Búið er að kyrrsetja eða fresta flugferðum á flugvöllum víðs vegar um heiminn vegna tæknilegra örðugleika sem skekja nú heimsbyggðina. Örðugleikarnir eru sagðir tengjast kerfisbilun hjá Microsoft.
Fjölmiðlar, lestarkerfi, heilbrigðisþjónusta, fjarskiptafyrirtæki, bankar og jafnvel Ólympíuleikarnir finna fyrir áhrifum kerfisbilunarinnar.
Stór hluti þessara bilana er sagður rakinn til vírusvarnar frá fyrirtækinu CrowdStrike sem sendi út gallaða uppfærslu í tölvukerfi Microsoft.
Veistu meira? Festist þú á flugvelli erlendis? Þú getur sent okkur erindi á frettir@mbl.is
Isavia segist ekki finna fyrir beinum afleiðingum á Keflavíkurflugvelli, en þó hafa einhver flugfélög seinkað flugi til landsins eða fellt niður ferðir.
Allar vélar á flugvöllum á Spáni hafa verið kyrrsettar. Þá eru einnig örðugleikar í Ástralíu og víða í Bretlandi.
Bandarísk flugfélög, þar á meðal Delta, United og American Airlines, hafa aflýst öllum flugferðum, samkvæmt upplýsingum frá flugmálayfirvöldum þar.
Mikil seinkun er á almenningssamgöngum víða um heim vegna örðugleikanna, m.a. í Bretlandi.
Orsökin er enn óljós en tæknirisinn Microsoft hyggst grípa til „mildunaraðgerða“.
Tæknirisinn segir að örðugleikarnir hafi gert vart við sig um kl. kl. 22 í gær.
Fyrirtækið segist rannsaka vandamál sem tengjast skýjaþjónustu sinni í Bandaríkjunum og vandamál sem hefur áhrif á nokkur smáforrit Microsoft og aðrar þjónustur þeirra.
Spítalar í Þýskalandi hafa sumir þurft að fresta öllum aðgerðum sem ekki eru taldar bráðnauðsynlegar.