Bjarni Benediktsson forsætisráðherra telur skorta raunsæi í umræðuna um útlendingamál. Vandamál tengd málaflokknum verði ekki leyst með því að opna landamæri enn frekar. Betra sé að veita ríkjum aðstoð sem missa fólk á flótta.
Bjarni sótti leiðtogafund Evrópuríkja í Bretlandi í gær. Staða innflytjenda- og hælisleitendamála voru á meðal meginumræðuefna á fundinum.
„Þar er öll Evrópa að taka sín regluverk til endurskoðunar,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.
Hann segir misjafnt eftir ríkjum hvers konar áskorun innflytjendamálin séu.
„En alls staðar eru menn sammála um að það er verið að reyna að verja getu kerfanna til þess að taka á móti hælisleitendum af mannúð. Það er gríðarleg áskorun vegna þess hversu miklir veikleikar eru í kerfunum. Víða eru kerfin að springa og það veldur ákveðinni skautun í umræðunni og menn þurfa einfaldlega að fara að sýna meira raunsæi,“ segir Bjarni.
Þá telur Bjarni að vandamál tengd þessum málaflokki verði ekki leyst með því að opna landamæri enn frekar.
„Mörg af vandamálunum sem eru hér að baki verða kannski ekki leyst með því að opna hliðin heldur meira með því að veita aðstoð heima fyrir, eins og til dæmis á við um þá sem eru að flýja frá Afríku,“ segir Bjarni.
„Þá var tónninn sá á fundinum að það mætti kannski gera meira í að styðja ríkin á heimavettvangi frekar en að leysa málin með því að opna Evrópu fyrir þeim sem eru að flýja þaðan.“