Leggja Suðurnesjalínu 2

Jarðhræringar á Reykjanesskaganum leiddu í ljós að sprungukerfið væri sums …
Jarðhræringar á Reykjanesskaganum leiddu í ljós að sprungukerfið væri sums staðar á hreyfingu undir Suðurnesjalínu 1. mbl.is/Árni Sæberg

Framkvæmd Suðurnesjalínu 2 hófst í dag. Ákveðið var að leggja loftlínu í stað jarðstrengs og segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets að það sé sökum erfiðra aðstæðna á svæðinu fyrir jarðstrengslagnir. Hann segir framkvæmdina koma til með að auka raforkuöryggi á svæðinu til muna. 

Áætlaður kostnaður loftlínunnar nemur um 3,2 milljörðum og línan kemur til með að spanna 34 km. 

„Þetta er mjög góð tilfinning bæði fyrir okkur sem fyrirtæki og örugglega líka mjög góð tilfinning fyrir íbúa á Reykjanesi, enda skiptir þessi framkvæmd þá gríðarlega miklu máli,“ segir Guðmundur í tengslum við upphaf framkvæmdarinnar, en áætluð verklok hennar eru árslok 2025.

Loftlína í stað jarðstrengs

Gengið hefur brösuglega að fá leyfi fyrir framkvæmd línunnar eftir mótmæli hagsmunasamtakanna Hraunavina, Landverndar, Landgræðslu, Umhverfisverndarsamtaka Íslands og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands.

Samtökin vildu, meðal annars, leggja jarðstreng í stað loftlínu. Guðmundur segir þó aðstæður á svæðinu ekki vænlegar jarðstrengjum.

„Aðstæður þarna eru mjög erfiðar fyrir jarðstrengslagnir,“ segir hann og nefnir tvær ástæður fyrir því, hraun og sprunguhreyfingar. 

„Þessar sprungur eru á hreyfingu og hreyfingarnar eru umfram það sem strengurinn þolir,“ segir hann og heldur áfram.

„Það hefur komið í ljós, í umbrotunum, að það eru sprunguhreyfingar á svæðinu, þar sem Suðurnesjalína 1 liggur um. Þannig að sprungukerfið á svæðinu er virkt og hreyfist.“ 

Hola þessi myndaðist í umbrotunum á Reykjanesskaganum.
Hola þessi myndaðist í umbrotunum á Reykjanesskaganum. mbl.is/Árni Sæberg

Stofnstrengur HS Veitna frá Svartsengi til Grindavíkur bráðnaði í sundur fyrr á árinu eftir að hraun fór yfir hann. Rafmagnslaust varð í bænum og leiða þurfti rafmagn til Grindavíkur um loftlínu. Loftlínan hlaut nafnið Sundhnúkahraunslína 1.

Guðmundur segir að af gefinni reynslu sé betur hægt að vernda loftlínur frá hraunflæði en jarðstrengi og tekur sem dæmi Svartsengislínu 1.

Þar var hægt að verja möstur línunnar með því að meðal annars hækka landið undir þeim.

Hann bætir einnig við að hluti Svartsengislínu 1 hafi verið hækkaður upp í land og varnargarðar reistir í kringum möstur línunnar. 

„Hvað hraunið varðar getum við varið loftlínur, en ekki jarðstrengi.“ 

Öryggiskröfur og eftirspurn

Heildarkostnaður framkvæmdarinnar eru 7,5 milljarðar, en framkvæmdin er ekki einungis línan sjálf. Guðmundur segir að með fjármununum sé einnig verið að efla hringtengingar í nágrenni Reykjanesbæjar.

Það segir hann vera forvarnaatriði til þess að tryggja að ef ein lína gefi sig taki önnur við. Líkt og verið er að gera með byggingu Suðurnesjalínu 2 við hlið línu 1. 

„Þegar þessar framkvæmdir eru afstaðnar koma þær til með að auka öryggi mjög mikið. Það er auðvitað mjög mikilvægt í ljósi þessara aðstæðna sem nú eru uppi.“

Hann segir að ekki einungis sé verið að efla orkuöryggi með framkvæmdunum heldur einnig auka flutningsgetu orku á svæðinu. 

„Það hefur verið mikil eftirspurn eftir orku á svæðinu og þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægur staður,“ segir hann og nefnir Keflavíkurflugvöll og þjónustu í tengslum við hann.

Hann segir Landsnet ekki hafa getað orðið við allri nýrri orkueftirspurn fyrirtækja á svæðinu fram að þessu og að mikil gróska sé á svæðinu sem kalli á frekari orkunotkun. 

Guðmundur bendir á að þegar kemur að hraunrennsli sé hægt …
Guðmundur bendir á að þegar kemur að hraunrennsli sé hægt að verja loftlínur fyrir hrauni en ekki jarðstrengi. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert