Segja ríkið ekki þurfa að byrja frá grunni

Að mati samtakanna ætti frekar að nýta þær lausnir sem …
Að mati samtakanna ætti frekar að nýta þær lausnir sem þegar eru til. mbl.isi/Hari

Samtök iðnaðarins og Samtök menntatæknifyrirtækja segja einokun ríkisins á markaði með námsgögn hafa komið í veg fyrir að matskerfi innan menntakerfisins hafi náð að þróast og hámarka skilvirkni.

Þetta kemur fram í umsögn samtakanna um áform um breytingu á lögum um grunnskóla sem kynnt voru í samráðsgátt fyrr í mánuðinum. 

Er þar meðal annars vakin athygli á því að matsferill, nýtt námsmat sem hefur verið í þróun hjá ríkinu í þónokkur ár og verður ekki tilbúið fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026-2027, sé nú þegar innbyggður í menntatæknilausnum.

„Þannig væri ofaukið að þróa aðra sértæka viðbót.“

Skora samtökin á stjórnvöld, ríki og sveitarfélög að mæta þörfinni fyrir upplýsingalæsi og menntatækni, með aukinni samvinnu við einkamarkaðinn.

Hindrað eðlilega þróun og vöxt

Áform um breytingu á lögum um grunnskóla voru birt til umsagnar 5. júlí í samráðsgáttinni.

Eru þar lagðar til breytingar sem heimila ráðherra að afla gagna um stöðu nemenda og skólakerfisins í stað samræmdra könnunarprófa og innleiða matsferil sem nýtt námsmatsfyrirkomulag.

„Staðan á markaði hefur hindrað eðlilega þróun og eðlilegan vöxt menntatækniiðnaðar hérlendis þar sem markaðsforsendur menntatæknifyrirtækja eru litlar sem engar. Áhersla á innleiðingu viðeigandi lausna kemur skýrt fram í skýrslu OECD um innleiðingu menntastefnu. Þar er stefnan lofuð en ítrekað bent á að tengja þurfi stefnuna við áþreifanlega árangursmælikvarða til að auðvelda val á aðgerðum og mat á árangri,“ segir í umsögn samtakanna.

„OECD bendir jafnframt á að hefðbundnar aðferðir við innleiðingu nýrrar stefnu, þ.e. svo kölluð „skriðuaðferð“, muni duga skammt til að koma á umfangsmiklu umbótum sem felast í menntastefnunni.“

Ekki verið hægt að fullnýta tækifærin

Samtökin telja að ef stjórnvöld ætli sér að tryggja komandi kynslóðum þá framtíðarfærni sé nauðsynlegt að taka skref í átt að nútímavæðingu námsmats og aukinni nýtingu á bestu tækni og vísindum sem völ er á hverju sinni í grunn- og í framhaldsskólum.

„Viðeigandi gögn eru til en vegna strangra skilyrða persónuverndarlaga og framkvæmdar Persónuverndar í þessum málum hefur ekki verið hægt að fullnýta þau tækifæri sem felast í söfnun þeirra. Taki áform þessi hins vegar tillit til tenginga inn í gagnabanka og auðnýtingar gagna fyrir ríki og sveitarfélög væri hægt að nýta gögnin til framfara.“

Frekar að nýta það sem er til

Mennta- og barnamálaráðuneytið og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu standa nú fyrir umfangsmiklum breytingum á námsmati í íslenskum grunnskólum með innleiðingu svokallaðs matsferils sem leysa á samræmdu prófin af hólmi. Stofnunin hefur umsjón með innleiðingu nýja námsmatsins sem taka á í gagnið í mörgum skrefum næstu árin.

Í umsögninni benda samtökin á að slíkur matsferill sé nú þegar innbyggður og ópersónugreinanlegur í öllum menntatæknilausnum. Segja þau ofaukið að þróa aðra sértæka viðbót.

„Að mati samtakanna ætti frekar að nýta þær lausnir sem þegar eru til.“

Eru fjórir matsferlar taldir upp sem dæmi í umsögninni, sem kanna m.a. hæfni í stærðfræði, læsi, orðaforða og íslensku.

„Jafnframt vilja samtökin benda á að þeir sérfræðingar sem starfa við þróun slíkra lausna eru mjög viljugir til að deila reynslu sem þeir hafa aflað við þróun sinna lausna, íslensku menntakerfi til hagsbóta. Samtökin hvetja því stjórnvöld eindregið til að líta til aukinnar samvinnu á þessu sviði, enda óþarft að hefja þá vinnu frá grunni með tilheyrandi kostnaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka