Sprengjuíhlutur til rannsóknar

Lítil sprengja sprakk í gær á Keflavíkurflugvelli.
Lítil sprengja sprakk í gær á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn er óljóst hver ber ábyrgð á lítilli sprengju sem sprakk á Keflavíkurflugvelli í gær. Þá er ekki vitað hver tilgangurinn með sprengjunni hafi átt að vera.

Þetta segir Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.

Eins og mbl.is greindi fyrst frá þá sprakk sprengja í Leifsstöð klukkan 15.16. Einn hlaut minniháttar áverka.

Enginn grunaður

„Það er enginn grunur en þessi íhlutur er til rannsóknar hjá tæknideildinni. Við fáum ekki upplýsingar um það fyrr en í fyrsta lagi seint í næstu viku eða síðar,“ segir Bjarney, spurð hvort einhver hafi verið handtekinn eða liggi undir grun.

Sá sem slasaðist var starfsmaður að vinnu á salerni og rak augun í sprengjuna, sem hefur verið lýst sem víti.

„Í rauninni er hann bara í viðgerð þarna á salerni fyrir fatlaða, er að laga þar vatnskassa og veitir þessu athygli þarna nálægt. Tekur töng og ætlar að fara fjarlægja [sprengjuna] og þá springur hún. Þetta er alveg pínulítið. Það urðu engar skemmdir eða neitt á klósettinu,“ segir Bjarney.

Eins og að finna nál í heystakki“

Hún segir að búið sé að fara yfir myndefni úr flugstöðinni frá síðasta sólarhring en án árangurs í leit að sökudólg.

Það sé óljóst hvenær sprengjunni hafi verið komið fyrir og þar sem hún hafi verið svo lítil þá verður erfitt að greina á fólki hver hafi komið með hana inn á salernið.

„Aðalatriðið er að búið er að tryggja öryggi í flugstöðinni og það er ekkert fleira. Við skoðum öll svona atvik, þetta er náttúrulega bara öryggisbrestur sem þarf að skoða vel og reyna okkar besta að finna. En þetta er eins og að finna nál í heystakki.“

Hún segir að líklega verði ekki hægt að komast að því hver tilgangurinn hafi verið með því að sprengja sprengjuna nema sá sem ber ábyrgð á verknaðinum finnist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert