Nokkrir á Íslandi hafa fundið fyrir áhrifum af kerfisbilun í Microsoft-stýrikerfinu. Bilunin hefur m.a. valdið því að flugferðum hefur verið frestað um víða veröld.
Megnið af tölvum hér á landi keyrir á Windows-stýrikerfi en meiri háttar kerfisbilun hjá Microsoft má rekja til gallaðrar kerfisuppfærslu frá netöryggisfyrirtækinu CrowdStrike.
„Þetta hefur einhver áhrif innanlands, af því að báðir þessir aðilar eru svo stórir,“ segir Guðmundur Arnar Sigmundsson, sviðstjóri CERT-IS, í samtali við mbl.is.
„Þeir sem hafa notað þessa vírusvörn frá CrowdStrike hafa að öllum líkindum lent í þessum galla,“ segir Guðmundur enn fremur.
„Þær [tölvurnar] bara krassa og fara ekkert í gang aftur. Það er svolítil handavinna að komast fram hjá þessu og setja hverja einustu tölvu í gang.“
Guðmundur kvaðst ekki geta sagt hvaða stofnanir eða fyrirtæki hefðu orðið fyrir tjóni eða truflunum vegna bilunarinnar.
„Við hjá netöryggissveitum Cert-Is erum að þjónusta sérstaklega þennan lista yfir mikilvæga innviði. Þar eru orkufyrirtæki, fjármálafyrirtæki og fleiri undir. Við erum búin að setja okkur í samband við þau og það eru ekki margir sem hafa lent í þessu,“ segir hann.
Vinna Cert-Is snýr ný að samhæfingu, segir hann. Leiðbeiningar um hvernig eigi að bregðast við verði gefnar út til fyrirtækja og stofnana sem fundið hafa fyrir biluninni.