Uppgjöf gagnvart neyðarástandi: Afdrifarík mistök

Viðskiptaráð vill að samræmdu prófin verði tekin upp að nýju.
Viðskiptaráð vill að samræmdu prófin verði tekin upp að nýju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áform mennta- og barnamálaráðuneytisins, um að leggja samræmd könnunarpróf niður fyrir fullt og allt, fela í sér uppgjöf gagnvart neyðarástandi sem ríkir í íslensku grunnskólakerfi.

Þetta er afstaða Viðskiptaráðs Íslands sem skilað hefur inn umsögn vegna fyrirhugaðrar breytingar á lögum um grunnskóla.

Með lagabreytingunni sé ráðuneytið endanlega að kippa úr sambandi síðasta vísinum að samræmdum árangursmælikvarða grunnskólakerfisins án þess að nýr mælikvarði liggi fyrir.

Áformaða lagabreytingin mun veita mennta- og barnamálaráðherra heimild til að leggja ekki fyrir samræmd könnunarpróf. Nýtt námsmat, svokallaður matsferill, hefur verið í þróun hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, sem taka á við af Menntamálastofnun og var sett á stofn í apríl síðastliðnum.

Í samráðsgáttinni, þar sem greint er frá áformunum, segir að ráðgert sé að nýja námsmatið verði tilbúið í byrjun næsta árs. Forstjóri stofnunarinnar segir þó að ekki verði hægt að innleiða það að fullu fyrr en skólaárið 2026-2027.

Þá verða sex ár liðin án þess að hæfni grunnskólanemenda hafi verið prófuð með samræmdri mælingu á landsvísu, eins og mbl.is hefur greint frá.

Stærsta stefnubreytingin á þessari öld

Með lagabreytingu árið 2008 hættu framhaldsskólar að styðjast við niðurstöður nemenda úr samræmdu prófunum við inntöku þeirra.

Í umsögninni segir að frá þessari breytingu hafi afturför íslenskra grunnskólabarna verið samfelld.

„Það ár hættu prófin að skipta máli bæði fyrir nemendur og starfsfólk grunnskólanna, því þau höfðu hvorki þýðingu fyrir framgang í námi né við umbótastarf í skólum. Niðurfellingin er stærsta stefnubreyting sem gerð hefur verið á grunnskólakerfinu á þessari öld – og námsárangurinn hefur legið niður á við allar götur síðan.“

Viðskiptaráð telur löngu orðið ljóst að afnám samræmdra prófa hafi verið mistök.

Samræmd próf verði tekin upp að nýju

Viðskiptaráðið hvetur stjórnvöld til að láta af áformum um að afnema samræmdu könnunarprófin, lögfesta skyldu um opinbera birtingu niðurstaðna, bæði samræmdra könnunarprófa og PISA-mælinga, niður á einstaka grunnskóla, og lögfesta heimild framhaldsskóla til að notast við samræmd próf við inntöku nýnema.

Þá eru framhaldsskólar jafnframt hvattir til að taka upp sín eigin inntökupróf sem mætti afleggja þegar stjórnvöld væru búin að koma aftur á fót samræmdum árangursmælikvörðum sem mætti nýta við inntöku nýnema.

„Þessar aðgerðir myndu tryggja betri samfellu í mælingum á árangri íslenska
grunnskólakerfisins, veita einstökum grunnskólum og stjórnendum þeirra bæði
aðhald og umbótaverkfæri, og tryggja grunnskólabörnum jafnræði á ný.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert