Fyrirtækið Aqua Omnis hefur í hyggju að hefja vatnsvinnslu á jörðinni Nesi í Ölfusi, en jörðin sú er um 14 km vestan við þéttbýli Þorlákshafnar.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Áformað er að bora 12 holur til vatnsöflunarinnar, en vatninu yrði síðan dælt í vatnstank á sjávarbotni, 2 til 3 kílómetra frá ströndinni og þaðan í tankskip sem yrðu allt að 3.000 tonn að stærð.
Tankskipin kæmu því ekki til hafnar í Þorlákshöfn, þar sem vatnið yrði innbyrt úti á sjó.
Þessum áformum er lýst í matsskýrslu verkfræðifyrirtækisins Cowi þar sem kemur m.a. fram að afkastageta vatnsvinnslukerfisins geti verið allt að 2.000 sekúndulítrar, en meðalrennsli þó mun minna.
Í samtali við Morgunblaðið segir Þorsteinn Guðjónsson, fyrirsvarsmaður Aqua Omnis og einn hluthafa, að ekki sé tímabært að fjalla um áætlaðan kostnað vegna verkefnisins.
Verkefnið hafi verið lengi í vinnslu og sú tækni sem gert sé ráð fyrir að nýta hafi tekið breytingum.
Fyrst var greint frá þessum hugmyndum árið 2013, en matsskýrsla Cowi hefur verið birt í skipulagsgátt Skipulagsstofnunar.
Matsskýrslan er nú til umsagnar, en í framhaldinu fer málið í lögbundið ferli, Skipulagsstofnun mun gefa álit sitt á matsáætluninni, síðan er umhverfismat eftir sem og álitsgjöf Skipulagsstofnunar á því.
Væntanlegt vatnstökusvæði er u.þ.b. miðja vegu á milli Þorlákshafnar og Hlíðarvatns í Selvogi, en í 3,5 til 4 km fjarlægð frá strandlengjunni.
Umfjöllunina um málið má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.