Yfirborðskenndar aðgerðir: Ekkert hefur breyst

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, hefur enga trú á þeim aðgerðum sem yfirvöld hafa boðað vegna slaks námsárangurs grunnskólabarna.

„Ég hef ekkert séð almennilega sem ég sé að eigi að breyta því sem er núna í gangi,“ segir Jón Pétur í Dagmálum. Telur hann aðgerðir undanfarinna ára yfirborðskenndar.

„Það er enginn sem axlar ábyrgð og segir: „Heyrðu þetta var á minni vakt, ég ætla að hætta eða ég ætla að snúa mér að því hvar PISA-prófið hefur gengið vel. Eru einhverjir skólar eða sveitarfélög sem hafa náð árangri og hvað eru þeir að gera?“ Ég sé ekki neitt þannig í farvatninu.“

Dramatíska breytingu þurfi til

Jón Pétur segir yfirvöld hafa ráðist í alls kyns átök undanfarin ár í von um að rétta úr kútnum. 

„Það vantar bara að horfa almennilega til baka og fara í grunninn. Ég sé þær aðgerðir sem á að gera núna – sem mér finnst afar takmarkaðar – mér finnst þær bara bera keim af því sem hefur verið gert áður,“ segir hann.

„Og ég held að ef maður prófar einhvern hlut þá breytist niðurstaðan ekkert þó maður prófi hann aftur og aftur og aftur og aftur. Og ég hef enga trú á því að þetta breytist neitt með því sem er í gangi núna, nema það verði einhvers konar dramatísk breyting.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert